Efnarafall sem nýtir alkóhól

Nissan er að byrja að prófa sig áfram með búnað í rafbíla sem skilur vetni úr lífrænt framleiddu etanóli - spíra. Vetnið er leitt í gegn um efnarafal og umbreytist í rafstraum sem knýr bílinn. Þar með þarf ekki lengur að koma fyrir í bílunum stórum geymum og rándýrum þar sem vetni er geymt undir gríðarlegum þrýstingi sem bæði getur skapað hættu auk þess að taka upp mikið rými í bílnum. Einungis þarf venjulegan eldsneytisgeymi í bílinn fyrir spírann.

Ef þessi tæknibúnaður sem kallast e-bio reynist vel, gæti það þýtt að vetnisrafbílar framtíðarinnar verði öruggari í notkun og ódýrari í framleiðslu þar sem þeir þarfnast ekki rándýrra þrýstigeyma sem bæði taka upp pláss í bílnum og þyngja hann. Þá þarf heldur ekki að reisa rándýrar vetnisframleiðslu- og -áfyllingarstöðvar eins víða og etanól er verulega ódýrara í framleiðslu en vetni.

Kostirnir eru þannig verulegir. En þó er það svo að engin er rósin án þyrna: Venjulegir efnarafalar sem breyta vetni í rafstraum gefa einungis frá sér vatnsgufu en búnaðurinn sem skilur vetnið úr spíranum losar einnig CO2 út í andrúmsloftið, að vísu mjög lítið ef marka má fréttir. Ennfremur er enn ekki ljóst hvaða áhrif mismunandi lofthiti hefur á búnaðinn, t.d. frost.

En tilhusunin um rafmagnsbíl með efnarafal og búnaði til að skilja vetni úr ódýrum spíra á „bensíntanknum“ sem svo knýr bílinn er óneitanlega notaleg. Vetnisbílar eru nefnilega bara rafmagnsbílar þar sem efnarafallinn og meðfylgjandi spíraskilvinda koma að mestu í stað rafgeymanna og leysa bíleigandann auk þess undan því að þurfa að stinga bílnum í samband sí og æ jafnvel klukkustundum saman, til að heta haldið áfram för sinni.