Nokkur atriði sem er gott að hafa í huga vegna eftirvagna

Allt virðist stefna í eitt stærsta ferðasumar hér á landi í langan tíma en sala á tjöldum, tjaldvögnum, fellihýsum og hjólhýsum hefur sjaldan verið meiri. En áður en farið er af stað er mikilvægt að kynna sér vel ástand bílsins og ekki síður ástandið á eftirvagninum. Oft á tíðum hafa vagnarnir staðið við misjafnar aðstæður í marga mánuði og síðan skellt aftan í bílinn og haldið af stað.

Hér verður stiklað á nokkur mikilvæg atriði sem er gott að hafa í huga áður lagt er af stað.

Dekk

Með aldrinum þornar gúmmí í dekkjum og þau verða stífari og sleipari í bleytu. Þá fara að myndast litlar sprungur og hætta á dekkið springi eykst. Á öllum dekkjum er stimpill sem segir til um framleiðsluviku og ár. Þetta eru fjórar tölur þ.e. tvær fyrstu segja til um hvaða vika ársins er um ræða og síðan seinni tvær segja til um ártal. Á meðfylgjandi mynd má sjá tölurnar 0907 sem segir okkur að dekkið er framleitt í 9 viku árið 2007.

Þegar dekk eru orðin fimm ára má ætla að eiginleikar fari að glatast og er ekki ráðlagt að nota dekk sem hafa náð 10 ára aldri. Þessa reglu ætti að virða þrátt fyrir að dekk séu nær óslitin því sprungur, þreyta og tapað grip þarf ekki endilega að sjást.

Framleiðsludagsetning á dekki   Dæmi um gamalt dekk

Val á dekkjum skiptir einnig máli, sérstaklega undir þyngri eftirvagna eins og felli- og hjólhýsi. Hér er ekki sérstaklega verið að tala um framleiðenda heldur hvert burðarþol dekkjana er. Burðarþol er tilgreint með tveimur til þremur bókstöfum og hægt að sjá nánar á meðfylgjandi töflu. Þá eru dekk sem sérstaklega eru gerð fyrir mikinn burð merkt C. Dæmi má nefna að algengt burðarþol á 13 tommu dekki er um 390 til 450 kíló sem er ágætt undri smábíl þar sem fjögur dekk deila álaginu. En séu þessi dekk sett undir hjólhýsi sem hefur t.d. heildarþyngd upp á 1500 kg þá er hýsið beinlínis orðið hættulegt þar sem dekkin hitna undan álagi, eru óstöðug og hætta á að þau hvell springi.

Hleðslutákn á dekki

Hleðslutafla dekk

Loftþrýsingur

Það verður aldrei of oft kveðið að passa upp á að hafa réttan loftþrýsting. Ef upplýsingar eru ekki aðgengilegar á hýsinu sjálfu þá er um að gera að heyra í innflytjenda eða jafnvel nálgast frekari upplýsinga á netinu. Brýnt er að hafa í huga að æskilegur loftþrýstingur er yfirleitt hærri á dekkjum sem hafa aukna hleðslu. Ef lofþrýstingur er rangur getur hýsið byrjað að „dansa“ aftan í bílnum. Dekkin hitnað óeðlilega, hættan á að sprengja dekk eykst og svo veldur aukið viðnám meiri eldsneytiseyðslu.

Hjólabúnaður

Hjólalegur eru einn af þeim slithlutum sem vilja oft gleymast. Þær slitna með tímanum og þá byrjar að myndast slag í dekkinu. Sé ekkert að gert geta afleiðingarnar orðið þær að dekkið fer undan vagninum með ófyrirsjánlegum afleiðingum. Þrátt fyrir að þetta sé partur af aðalskoðun vagna þá er góð regla að tjakka vagninn upp og taka á dekkinu. Ef það er hægt að hreyfa dekkið þegar togað er út eða ýtt inn þarf að láta kíkja nánar á málið. Þá er einnig ágætt að þreyfa á felgunum eftir lengri akstur og hvort óeðlilegur hiti sé að myndast á öðru hvoru dekki. Ath. það þarf ekki endilega að benda til að eitthvað sé að ef einhver hiti sé frá dekkjunum og hann sé jafn báðu megin.

Ljós

Ljósin verða að sjálfsögðu að vera í lagi, bremsuljós, stöðuljós og breiddarljós að framan svo eitthvað sé nefnt. Hafið hugfast að ljósin á vagninum eru þau einu sem bílarnir á eftir sjá þar sem bíllinn er í hvarfi.

Bremsur

Á öllum eftirvögnum sem eru skráðir yfir 750 kg að heildarþyngd er gerð krafa um sjálfstæðan bremsubúnað á vagninum sjálfum. Bremsukerfin eru misjöfn en algengt er að sjá þrýstibremsur á beisli og síðan rafmagnsbremsur. Þennan búnað þarf að yfirfara reglulega, sérstaklega með tilliti til þess hversu lengi vagnar standa ónotaðir. Gott að hafa sömu reglu varðandi hjólalegurnar þ.e. ef að óeðlilega mikill hiti er að myndast getur það bent til að bremsubúnaður liggi úti bremsuskálina.

Speglar

Ekki má gleyma framlengingum á hliðarspeglum því ökumaður sem veit ekki hvað er að gerast fyrir aftan sig getur skapað mikla hættu t.d. þegar víkja þarf fyrir lögreglu- og eða sjúkrabílum í forgangsakstri.

Sífellt fleiri setja þráðlausar bakkmyndavélar á hjólhýsi og þær geta skipt sköpum þegar verið er að bakka t.d. innan um fólk og börn á tjaldsvæðum.

Beisli

Með tímanum slitnar kúlusætið á beislinu og þá getur myndast sláttur þegar hýsið fjaðrar og tekur í bílinn. Sé ekkert að gert versnar ástandið og getur farið að skemma kúluna og hætta skapast á að lásinn nái ekki lengur að halda öruggri tengingu. Á sumum beislum eru öflugri læsing eða þvinga sem læsist um kúluna og hægir á snöggum hreyfingum. Þennan búnað þarf að yfirfara reglulega og skipta um fóðringar í. 

ALKO beisli

Á flestum vögnum sem hafa bremsur er bremsuvír festur í bílinn þegar vagninn er tengdur. Ef vagninn skyldi losna frá á ferð togast í vírinn og bremurnar virkjast á vagninum. Því er mjög mikilvægt að setja ekki auka keðju festingar sem geta haldið í vagninn þegar bremsuvír hefur verið virkjaður.

 

Hleðsla

Eitt af mikilvægustu atriðum þegar kemur að öryggi við drátt á eftirvagni er að hafa rétta hleðslu. Hlaða skal vagninn þannig að þyngdin hvíli sem mest á öxlum vagnsins. Sé hleðslan of mikil fyrir framan öxul leggst þyngdin á beislið og bílinn. Bíllinn hefur nóg með sjálfan sig, allan farangur í skottinu og því getur aukin þyngd skert virkni fjöðrunarbúnaðar, aukið álag á dekk  og bíllinn fer að láta illa af stjórn. Þá eru flest dráttarbeisli ekki gerð fyrir nema um 75-100 kg hleðslu og því mikið í húfi. Sama gildir um of mikla þyngt fyrir aftan öxul. Hýsið byrjar þá að toga í bílinn og rykkja afturendanum upp í ójöfnum. Þetta ástand getur skapað mikla hættu þar sem hýsið getur farið á flökkt sem stigmagnast þar til ekki verður aftur snúið og ökumaður missir alla stjórn á bílnum.

Í meðfylgjandi myndbandi má sjá hversu mikil áhrif röng hleðsla getur í raun haft.

Æskilegt er að eftirvagnar séu í eins beinni línu við bílinn eins og hægt er. Sé dráttarkúlan of hátt upp hallar vagninn upp á við og lætur illa að stjórn. Til að leysa þessi mál er mögulega hægt að fá lægri krók, breyta beisli eða jafnvel hækka eftirvagn upp.

Réttindi

Skýringarmynd frá SamgöngustofuAð sjálfsögðu þurfa öll réttindi að vera í lagi til að draga viðkomandi vagn. Með B réttindum má vagnlestin þ.e. heildarþyngd eftirvagns og heildarþyng bíls samanlagt ekki fara yfir 3500 kg. Þeir sem tóku bílpróf fyrir 1997 fengu einnig BE réttindi sem veita rétt til að heildarþyngd vagns megi vera allt að 3500 kg og síðan heildarþyngd bíls 3500 kg.

Ef ökumaður er óvanur að draga þungan eftirvagn eða um nýtt tæki að ræða þá er gott að taka prufu akstur áður en lagt er af stað í langa ferð. Fylgist með því hvernig vagninn lætur er hann að rása til, rykkir hann óeðlilega í bílinn í ójöfnum? Hvernig hegðar bíllinn sér? Er hann að fjaðra eðlilega að aftan og lætur hann vel að stjórn? Óeðlilegur hávaði eða víbringur er ekki eðlilegt ástand og þarf að skoða nánar áður en lengra er haldið.

 

 

Að lokum snýst þetta allt um almenna skynsemi. Hafa einbeitinguna í lagi og haga akstri í takt við það sem er verið að draga því akstureiginleikar bílsins eru ekki þeir sömu og umfang bílsins á veginum hefur margfaldast.

Njótum þess að ferðast og gleðilegt sumar.

Björn Kristjánsson