Einstakur lúxus í Renault EZ-ULTIMO

Á bílasýningunni í París á dögunum sýndi Renault hugmyndabílinn EZ-ULTIMO, alsjálfvirkan, nettengdan og rafknúinn „leigubíl“ í lúxusflokki sem er hugsaður fyrir viðskiptavini sem velja fágætisþjónustu og einstaka upplifun á stórborgarsvæðum. Bíllinn er mannlaus og kemur sjálfur á pantaðan áfangastað.

Hugmyndin er að bíllinn sinni þjónustu í einkaferðum sem tekið geta um klukkustund eða heilan dag á ferð milli mismunandi áfangastaða, hvort sem er með einstaklinga, lítinn hóp eða viðskiptavini fyrirtækja sem kaupa þjónustuna sérstaklega fyrir verðmæta viðskiptavini sína.

Nýkynslóð „limmósín“

Með EZ-ULTIMO er Renault í raun að færa viðskiptahugmyndina um rekstur löngu glæsikerranna (limosine) á alveg nýtt stig hvað varðar glæsileika og þægindaþjónustu en þar sem bíllinn er alsjálfvirkur er ekki gert ráð fyrir bílstjóra undir stýri. EZ-ULTIMO er vönduð og vel útfærð setustofa í hæsta gæðaflokki sem flytur farþegana milli spennandi og áhugaverðra áfangastaða í borginni og utan hennar.  

Það er sýn Renault að þróun raftækninnar og sífellt aukin sjálfvirkni bíla muni skapa ný og spennandi viðskiptatækifæri í ferðaþjónustu, hvort sem er í vel útfærðri lúxusþjónustu í hæsta gæðaflokki, bæði fyrir sérvalda hópa og viðskiptavini fyrirtækja sem fara í skipulagða dagsferðir og fyrir þá sem langar bara að upplifa munaðinn, tæknina og sjálfvirkni bílsins með því að kaupa stutta bílferð í einstökum lúxusbíl 21. aldar.

Til að þróa hugmynd sína um EZ-ULTIMO frekar hefur Renault Group fjárfest í tæknifyrirtækinu Groupe Challenges og hafið vinnu við fyrsta verkefnið með sérfræðingum þess sem ber vinnuheitið Augmented Editorial Experience – AEX. Teymið hefur það verkefni að halda áfram vinnu við þróun og útfærslu fyrirhugaðra eiginleika EZ-ULTIMO fyrir kröfuharða viðskiptavini.