Eitt vinsælasta bílasportið gerist „grænt“

http://www.fib.is/myndir/Formuluferrari.jpg

FIA – alþjóðasamtök bifreiðaeigendafélaga og –íþróttafélaga hafa hleypt af stokkunum miklu átaki sem nefnist Make Cars Green, eða gerum bílana umhverfismilda. Átakið mun verða sýnilegt í Formúlunni á næsta keppnistímabili 2009 á þann hátt að Formúlubílarnir verða með svokölluðum KERS búnaði (Kinetic Energy Recovery System – endurvinnslukerfi fyrir hreyfiorku).  Í raun þýðir þetta að Formúlubílarir verða tvinnbílar sambærilegir við Toyota Prius o.fl.  sem endurvinna hreyfiorku bílsins við hemlun og  geyma hana á rafgeymum og endurnýta síðan við hröðun.

Bosch Motorsport, ein undirdeilda hins risavaxna tæknifyrirtækis Bosch, vinnur nú að þróun KERS búnaðar fyrir Formúluna og aðrar tegundir bílasports. Samkvæmt frétt frá Bosch er unnið að einskonar „einingaakerfi“ sem hægt er að setja saman á mismunandi hátt eftir því hvort kerfið á að uppfylla þarfir og kröfur Formúlunnar eða einhverrar annarrar mótorsportsgreinar eins og t.d. 24 tíma kappakstursins í Le Mans. Klaus Böttcher  forstjóri Bosch Motorsport segir að í samanburði við tvinnkerfi í fólksbílum verði þetta nýja tvinnkerfi fyrir kappakstursbíla að vera miklu ðflugra en jafnframt mun fyrirferðarminna.

Tvinnkerfi Bosch Motorsport er samsett úr  þremur meginhlutum – rafhlöðu, rafmótor(um) og stjórntölvu eða KERS stjórnstöð eins og menn kjósa að kalla fyrirbærið. KERS stjórnstöðin sér um að stýra virkni rafhlaðanna og stjórna gangi bensínvélarinnar  og samhæfa gang hennar og rafmagnsaflvéla bílsins. Hin endurnýtta hreyfiorka frá hemlunum er ýmist (eða hvorttveggja) geymd á rafhlöðunum  sem rafstraumur eða í þungu kasthjóli sem getur geymt allt að 750 kílójoule af orku sem skilar sér út í drifhjólin þegar þörf er á snöggri hröðun. Rafmagns-drifmótorarnir eru hver um sig einungis fjögur til átta kíló að þyngd en hámarksafl er 60 kílówött.
Undanfarin 15 ár hefur að frumkvæði  FIA, alþjóðasamtaka bifreiðaeigendafélaga og bílaíþrótta, tekist að gera bíla bæði margfalt öruggari en áður og miklu umhverfismildari.
Öryggisþátturinn á raunar upphaf sitt að rekja til Formúlunnar en í henni voru slys, ekki síst dauðaslys algeng fyrr á árum.  Á þeim málum var tekið af myndarskap og festu og voru bæði bílar og akstursbrautir og umhverfi þeirra gert öruggara. Það hefur borið þann árangur að ekki hefur orðið dauðaslys í Formúlunni síðan.

Sú reynsla sem fékkst í Formúlunni var síðan yfirfærð á almenna umferð og bíla almennings. FIA gekkst fyrir stofnun EuroNCAP öryggisprófana á nýjum bílum og síðar fyrir stofnun EuroRAP öryggisskoðunar á vegum og það er ekki síst EuroRAP að þakka að fólksbílar almennings eru nú miklu öruggari en nokkru sinni fyrr og árangur EuroRAP er sá að hættulegum vegarköflum og svartblettum í vegakerfum heimsins fer fækkandi.