Eiturefni finnst í barnabílstól

Eiturefni sem kallast phtalate hefur fundist í barnabílstólnum Concord Ultimax 2 í Danmörku. Dönsk yfirvöld hafa af þessum sökum bannað sölu á stólnum í Danmörku og ráðlagt þeim sem þegar hafa keypt stólinn, að skila honum inn og krefjast endurgreiðslu. Efnið fannst í skyndiathugun heilbrigðiseftirlits. Phtalate er talið vera krabbameinsvaldur.

Sú meginkrafa sem er gerð til barnabílstóla er að þeir verndi barnið í bílnum ef slys verður. En það eitt er ekki nóg. Heilsu- og umhverfisspillandi efni eiga heldur ekki að vera til staðar í þessum öryggisbúnaði. Phalate efnið greindist í öryggisbelti stólsins og var sala á honum þegar í stað bönnuð. Luise Mai Cordsen lögfræðingur hjá FDM, systurfélagi FÍB í Danmörku, segir að þetta atvik staðfesti að jafnt og stöðugt eftirlit og endurteknar prófanir og sýnatökur sé ennþá nauðsynlegt. Vel geti nefnilega verið að þótt búið sé áður að rannsaka og prófa barnastól og staðfesta að hann standist kröfur, þá geti ýmislegt breyst eftir það. Vera kann til dæmis að framleiðandi skipti um undirframleiðanda einhverra hluta stólsins og eftir það komi fram óæskileg og varasöm efni í stólunum.
Í umræddri athugun og sýnatöku reyndist þessi eini innihalda phtalate af þeim stólum sem athugaðir voru. En þar sem ekkert raðnúmer er á Concord Ultimax 2 stólunum er ómögulegt að rekja efnið til tiltekinnar númeraseríu. En það er ekki bara órekjanleikinn sem um er að ræða heldur líka það að Concord Ultimax 2 barnastóllinn varð sl. vor í efsta sæti í evrópskri barnastólakönnun. Það hefur efalaust ráðið nokkru um val ábyrgra foreldra og gerir málið neyðarlegra en ella. 
Luise Mai Cordsen lögfræðingur hjá FDM segir að þar sem skaðlegt efni hafi fundist í stólunum ráðleggi hún að kaupendur skili stólum sínum þangað sem þeir voru keyptir. Þar sem beltin eru saumuð föst við áklæðið á stólum þessum sé ekki skynsamlegt að reyna sjálfur að spretta upp saumunum til að losa beltið frá og fá nýtt til að sauma á stólinn. Slíkt geti komið niður á öryggi barnsins. En ef söluaðili neitar að endurgreiða stólinn skuli kaupandi krefjast þess að framleiðandi geri við stólinn og láni annan á meðan viðgerð stendur, og að tryggt sé að hann sé eiturefnalaus og að öðru leyti jafngóður og sá eitraði.