Ekkert DSG hjá Mazda

Sex og sjö gíra DSG-gírkassarnir sem Volkswagen kom fyrst fram með fyrir tæpum áratug eru í raun hefðbundnir gírkassar en tvær kúplingar og tölva sjá um að velja næsta gír og skipta upp eða niður. Svona gírkassar eru komnir í fjölda tegunda og gerða bíla, t.d. Ford, Renault, Mitsubishi, Porsche og BMW, og eru undir ýmsum nöfnum. Verkfræðingarnir hjá Mazda hafa þó ekki mikla trú á DSG tækninni og vinna að því að þróa alveg nýjan sjálfskiptan gírkassa sem þeir segja að sé bæði skjótari í skiptingum og sparneytnari á dýrmætt eldsneytið en DSG kassarnir.

Verkfræðingarnir hjá Mazda telja að DSG gírkassarnir séu of seinir í skiptingum upp á við þegar hressilega er gefið í til að auka hraðann og einnig þegar skipta þarf niður í brekkum eða beygjum. Það gerist vegna þess að önnur kúplingin sé hreinlega ekki tilbúin með rétta gírinn þegar á þarf að halda. Ennfremur hafa komið fram ágallar í DSG gírkössunum, eins og rykkjótt gírskipting, ekki síst þegar tekið er af stað. Þessvegna hafa þeir Mazda-menn ákveðið að áframþróa hina hefðbundnu sjálfskiptingu sem byggir á plánetugírum og sólhjólum og er í raun framþróun af gömlu „High“ og „Low“ skiptingunni í eldgamla Ford T. Mazda skiptingin nýja er hins vegar ekki bara tveggja hraða heldur sex.

Þessi nýja skipting frá Mazda verður sýnd og útskýrð í tæknideild Frankfurt bílasýningarinnar sem opnuð verður í næsta mánuði. Þar mun Mazda einnig sýna nýjar sparneytnar vélar sem þeir kalla Skyactive. Þær eru ólíkar nýjum vélum annarra framleiðenda á þann hátt að í þeim er hvorki afgastúrbína né vélræn forþjappa (kompressor). Ný uppfærð útgáfa af Mazda 3 sem myndin er af, verður sýnd í Frankfurt með bæði nýju sjálfskiptingunni og Skyactive-vél.