Ekkert hámarakshraðamark á átóbanana

http://www.fib.is/myndir/Angela_merkel.jpg

Angela Merkel kanslari Þýskalands er viss í sinni sök. Meðan hún situr á valdastóli verður ekki sett almennt hámarkshraðamark á þýsku hraðbrautirnar. Um síðustu helgi var enn lagt fram frumvarp í þýska þinginu um að setja lög um 130 km hámarkshraða á þýsku hraðbrautirnar. Í umræðu um nýju tillöguna í þýska ZDF sjónvarpinu í gær kvaðst kanslarinn eindregið leggjast gegn því. –Þetta verður ekki gert meðan ég er í ríkisstjórn,- sagði Angela Merkel.

Þjóðverjar hafa rætt það fram og til baka um árabil hvort setja skuli lög um almennan hámarkshraða á átóbanana og síðast var slíkt frumvarp lagt fram í september sl. Sú meginástæða sem tilgreind er í lagafrumvarpinu nú er sú að draga úr losun koldíoxíðs en Evrópukommissarinn Stavros Dimas hefur og lagt hart að Þjóðverjum að þeir söðli um þegar í stað.

ZDF sjónvarpsstöðin þýska gerði sl. vor könnun meðal áhorfenda um hvað þeim þætti um að setja lög um 130 km hámarkshraða á hraðbrautunum. 54 prósent kváðust hlynnt því vegna þess að það væri nauðsynlegt. 10 prósent gátu hugsað sér enn lægri hámarkshraða og 35 prósent vildu ekki hrófla við núverandi fyrirkomulagi og hafa frjálsan hámarkshraða áfram. Allt aðrar niðurstöður komu út úr samskonar könnun sem bílatímaritið Auto Motor & Sport í Þýskalandi gerði meðal lesenda sinna. 72 prósent þeirra vildu áfram ótakmarkaðan hámarkshraða og einungis 12 prósent vildu takmarka hann.