Ekki fullhlaða – ekki láta geymana tæmast

Cherolet Bolt eða Opel Ampera-e eins og hann kallast í Evrópu.
Cherolet Bolt eða Opel Ampera-e eins og hann kallast í Evrópu.

Uppfært 24.09.2021

Rafbíllinn Chevrolet Bolt sem heitir Opel Ampera-e í Evrópu hefur um langt skeið verið höfuðverkur framleiðandans General Motors vegna vandræða með rafhlöðurnar sem er frá kóreska rafhlöðuframleiðandanum LG Chem. Rafhlöðurnar er nefnilega ,,óstöðugar.“ Með því er átt við að ef ekki er gætt ítrustu varúðar í umgengni við þær, getur komið upp eldur í þeim.

    Í áranna rás hafa eigendur þessara bíla fengið ýmiskonar tilkynningar og viðvaranir frá GM um hvernig þeir skyldu forðast þessar hættur, t.d. með því að hlaða geymana aldrei meir en 90 prósent og keyra aldrei hleðsluna út heldur tengja bílinn við hleðslu þegar rafmagn til 110-120 km aksturs er eftir á geymunum. Þá skuli aldrei hlaða bílana næturlangt innanhúss. Séu þeir hins vegar hlaðnir innanhúss skuli fylgst með þeim á meðan og þeim síðan lagt utanhúss að hleðslu lokinni.

    Nú nýlega fengu eigendurnir svo nýja varúðarreglu. Hún er sú að leggja bílunum aldrei nær öðrum bílum en í 15 m fjarlægð og á þakhæðum bílastæðahúsa þannig að hugsanlegur bruni í þeim hafi sem minnst tjón í för með sér. Þessi tilmæli til notenda og eigenda bílanna eru í rauninni til þess eins fallin að velta ábyrgð framleiðandans á vöru sinni yfir á kaupendur. Þeim er uppálagt að gæta þess að hugsanlegir eldar sem kynnu að koma upp í bílunum valdi ekki öðrum tjóni, af því þeir hafi fengið vitneskju um þennan alvarlega galla.

    En öll þessi sorgarsaga leiðir í rauninni til þeirrar megin niðurstöðu að í rauninni séu bílarnir vart nothæfir vegna stórgallaðra rafhlaða í þeim og háskalegir að auki. Því er hið eina ásættanlega það að annaðhvort skipti framleiðandinn General Motors alveg um rafgeyma og rafmagnsstjórnbúnað í bílunum eða taki þá til baka og eyði þeim, sem sennilega yrði skásta lausnin.

    Talsverðar vonir voru bundnar við Chevrolet Bolt/Opel Ampera-e í upphafi af hálfu GM og fengu bílarnir ágæta og jákvæða umfjöllun þegar þeir komu fram á sjónarsviðið fyrir rúmum fimm árum. Þeir þóttu ágætir í akstri og búnir mörgum öðrum góðum kostum. En svo fór fljótlega að bera á vandamálunum með geymana.

    Almennt séð er brunahætta alls ekki meiri í rafbílum en í hefðbundnum bensín- og dísilbílum, heldur þvert á móti. Það er hlutfallslega mikið algengara að eldar komi upp í eldri brunahreyfilsbílum en rafbílum. í Noregi þar sem rafbílar eru orðnir mjög stór hluti bílaflotans í umferð sýna töluleg gögn að það kviknar hlutfallslega fimm sinnum oftar í brunahreyfilsbílum en í rafbílum. 

  Í samtali við Benedikt Eyjólfsson hjá Bílabúð Benna umboðsaðila Opel á Íslandi kom fram að innköllunin nái til um 150 þúsund bíla um allan heim.
Mest hefur þó borið á umræddu vandamáli í bílum sem voru framleiddir fyrir 2018 en nær allir skráðir bílar hér heima 2018 og yngri. Þá segir Benedikt að nú þegar hefur verið farið í innköllun þar sem tölvubúnaður hefur verið uppfærður og hleðsla takmörkuð í 90%. 
Aðspurður hvenær eigendur megi vænta nýrrar rafhlöðu segir hann útskiptingar séu hafnar erlendis og að ekki sé komin staðfest dagsetning á það hvar Ísland sé í röðinni.
Opel hefur gefið út að nýju rafhlöðurnar muni verða stærri ásamt því að átta ára ábyrgð muni gilda á þeim frá ísetningu. Bílabúð Benna hefur einnig verið í viðræðum við Opel varðandi bætur til eigenda vegna óþæginda sem þessi bilun geti valdið en það sé enn í vinnslu.

Benedikt hvetur eigendur til að hafa samband Opel umboðið með frekari spurningar varðandi málið.