Ekki lengur gjaldfrjálsir

Það hefur til þessa verið einn af meginkostum þess að aka rafbíl í Kaupmannahöfn að frítt hefur verið fyrir þá í gjaldskyld stæði í eigu borgarinnar. En í gær hvarf þessi ávinningur því að borgin afturkallaði  hann þegjandi og hljóðalaust í gær. Framvegis verða rafbílaeigendur því að borga það sama og eigendur annarra bíla og stöðugjöld í Kaupmannahöfn eru mjög há.

Reglan um gjaldfrelsi fyrir rafbíla í Kaupmannahöfn er um tveggja áratuga gömul og þar sem fólk hefur gengið út frá þessu fyrirkomulagi sem vísu í allan þennan tíma, eru margir furðu slegnir yfir því hversu borgin hefur verið spör á upplýsingar um breytinguna.

Einu tilkynninguna um hana er að finna á heimasíðu borgarinnar frá 29. nóvember. Í henni segir að frá fimmtudeginum 1. des. 2011 skuli greiða sömu stöðugjöld af rafbílum á gjaldskyldum bílastæðum borgarinnar og af venjulegum bílum.

Bílastæðaverðskráin er misjöfn eftir staðsetningu stæðanna. Dýrustu stæðin eru í miðborginni þar sem klukkustundin kostar 29 danskar krónur eða rúmar 620 krónur íslenskar. Gjaldfrelsið hingað til hefur því skipt þá rafbílaeigendur verulegu máli sem annaðhvort búa í miðbænum eða eiga oft erindi þangað.