Ekki mælt með því að hjólað sé á akbrautum með mikilli og hraðri umferð

Að undanförnu hafa ökumenn tekið eftir því að reiðahjólafólk hjóli í meira mæli á vegunum. Um helgina var vart við reiðhjólafólk á Þingvallavegi og á Reykjanesbraut svo eitthvað sé nefnt. Reiðahjólafólk var ýmist eitt, hjólaði samhliða og var í hópum. Mörgum ökumönnum þótti þetta í sumum tilfellum óþægilegt og beinlínis varasamt. Þegar málið er nánar skoðað kemur í ljós að nýjum umferðarlögum sem tóku gildi 1. janúar sl. eru sérreglur fyrir reiðhjól. Þar kemur m.a. fram að hjólandi vegfarendur hafa fullan rétt á að vera á akbrautum. Ekki er þó mælt með því að hjólað sé á akbrautum með mikilli og hraðri umferð (ef annar valkostur er í boði).

Reiðhjól eru lögum samkvæmt skilgreind sem ökutæki og því gilda í grundvallaratriðum sömu lög og reglur um akstur reiðhjóla og bíla. Þó er sú undantekning á að hjóla má á gangstéttum og gangstígum en hjólreiðamaður skal þar víkja fyrir gangandi vegfarendum og sýna þeim fulla tillitsemi. 

Í nýjum umferðarlögum sem tóku gildi 1. janúar 2020 eru í 42. gr sérreglur fyrir reiðhjól kemur meðal annars fram.

 - Hjólreiðamaður skal að jafnaði hjóla í akstursstefnu á hjólastíg eða hjólarein eða hægra megin á akrein þeirri sem lengst er til hægri á akbraut sem er ætluð almennri umferð.

 - Hjólreiðamenn skulu hjóla í einfaldri röð. Þar sem nægilegt rými er mega tveir þó hjóla samhliða ef það er unnt án hættu eða óþæginda fyrir aðra vegfarendur. Ef gefið er merki um framúrakstur mega hjólreiðamenn eigi hjóla samhliða nema aðstæður leyfi eða nauðsyn krefji.

 - Hjólreiðamaður skal sýna sérstaka aðgát við vegamót og þar sem akbraut og stígar skerast.

- Hjólreiðamaður má ekki hanga í öðru ökutæki á ferð eða halda sér í ökumann eða farþega annars ökutækis.

43. gr. Undanþáguheimildir fyrir hjólreiðamenn.

-    Heimilt er að hjóla á gangstétt, göngustíg eða göngugötu, enda valdi það ekki gangandi vegfarendum hættu eða óþægindum eða sveitarstjórn hefur ekki sérstaklega lagt bann við því. Ef hjólastígur er samhliða gangstétt eða göngustíg skal að jafnaði notast við hjólastíginn. Þó er í slíkum tilvikum heimilt að hjóla á gangstétt eða göngustíg ef fyllsta öryggis er gætt og ekki er hjólað hraðar en sem nemur eðlilegum gönguhraða.

-     Hjólreiðamaður á gangstétt, göngustíg eða göngugötu skal víkja fyrir gangandi vegfarendum. Hann skal gæta ýtrustu varkárni og ekki hjóla hraðar en svo að hann geti vikið úr vegi fyrir gangandi vegfarendum sem eiga leið um. Hann skal gefa hljóðmerki þegar hann nálgast gangandi vegfarendur ef ætla má að þeir verði hans ekki varir.

- Ef hjólreiðamaður á gangstétt þverar akbraut skal hann gæta að því að hjóla eigi hraðar en sem nemur venjulegum gönguhraða. Sama á við um hjólreiðamann sem þverar akbraut á gangbraut.

- Á vegi þar sem leyfður hámarkshraði er ekki meiri en 30 km á klst. er hjólreiðamanni heimilt að hjóla á miðri akrein, enda gæti hann fyllsta öryggis og haldi hæfilegum hraða.

- Hjólreiðamaður á vegi má til framúraksturs nota akreinina við hlið akreinar lengst til hægri ef eigi er unnt að fara fram úr hægra megin.

44. gr. Börn og reiðhjól.
- Barn yngra en níu ára má ekki hjóla á akbraut nema undir leiðsögn og eftirliti manns sem náð hefur 15 ára aldri.
- Hjólreiðamaður sem náð hefur 15 ára aldri má reiða börn yngri en sjö ára, enda séu þeim ætluð sérstök sæti og þannig um búið að ekki stafi hætta af hjólteinunum.