„Ekki skúta upp á bak"

Í dag hratt Samgöngustofa með stuðningi VÍS af stað herferðinni „Ekki skúta upp á bak”. Herferðinni er ætlað að á djarfan og skemmtilegan hátt að efla vitund fólks fyrir ábyrgð sinni við akstur rafhlaupahjóla eða rafskúta eins og þær eru kallaðar í herferðinni. Herferðin verður keyrð næstu vikur í ýmsum útgáfum og á margskonar miðlum.

Á hverjum degi er gríðarlegur fjöldi fólks sem notar rafskútur. Þótt aðeins lítið hlutfall þess hóps gefi afslátt af öryggi sínu hefur það mjög alvarlegar afleiðingar sem sjá má í tölum slysaskráningar Samgöngustofu svo ekki sé talað um aukið álag á heilbrigðisstofnanir. Verst er þó vitanlega það tjón og þær tilfinningalegu byrðar sem viðkomandi og aðstandendur bera.

Í skýrslu Samgöngustofu um slys í í umferðinni 2022 kom fram að í fyrsta sinn frá árinu 1973 létust fleiri úr hópi gangandi og hjólandi en úr hópi ökumanna og farþega. Af þeim sem slösuðust alvarlega var 81 á reiðhjóli eða rafhlaupahjóli en 58 í fólksbíl. Alls slösuðust 176 á rafmagnshlaupahjóli, þar af 48 alvarlega.

Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra fór yfir stöðu mála hvað varðar slysatölfræði og áform stjórnvalda til að auka öryggi er varðar notkun rafskúta. Sigurður Ingi sagði að á síðustu árum hafi verið lögð áhersla að styðja við fjölbreytta ferðamáta. Með breyttum ferðamáta eins og gangandi eða hjólandi drögum við úr losun gróðurhúsaloftegunda, stuðlum að betri loftgæðum í þéttbýli og vinnum að bættri lýðheilsu.

Samhliða áherslu á fjölbreytta ferðamáta hefur smáfarartækjum fjölgað mikið í umferðinni á síðustu árum. Einkum eru það rafhlaupahjólin, eða rafskúturnar sem margir kalla þau, sem hafa breytt landslaginu. Vinsældir þeirra hafa verið miklar og notkun margfaldast á undanförnum árum. Þeim vinsældum hafa þó fylgt ýmsar áskoranir og hættur. Notkun þeirra hafa fylgt fjölmörg slys, og ekki aðeins skeinur og skrámur, heldur því miður mjög alvarleg slys og tvö andlát.

Tölurnar tala sínu máli

Í nýlegri skýrslu Samgöngustofu um umferðarslys árið 2022 eru upplýsingar sem vekja mann alvarlega til umhugsunar.

  • Um fjórðungur allra látinna og alvarlega slasaðra í umferðinni árið 2022 voru á rafhlaupahjólum, eða 49 tilvik af 204. Sömu tölur fyrir fólksbíla eru 61 tilvik af 204 en á það verður að líta að umferð fólksbíla er margfalt meiri en rafhlaupahjóla. Þessar tölur gefa til kynna að meiri áhætta er fólgin í því að vera á rafskútu heldur en í fólksbíl.
  • Í sömu skýrslu kemur fram að tvöfalt fleiri slasast á rafhlaupahjóli en á venjulegu reiðhjóli. Notkun reiðhjóla er 4-5 sinnum meiri en á rafhlaupahjólum skv. síðustu könnun sem þýðir að áhættan við að vera á rafhlaupahjólum miðað við reiðhjól er sjö til tíföld.
  • Þá kemur í ljós að 23% alvarlegra slysa á rafhlaupahjólum verða á svokölluðum „djammheimferðartíma“, seint á kvöldin á föstudags- og laugardagskvöldum. U.þ.b. 3% alvarlega slasaðra hjólreiðamanna, 3% alvarlega slasaðra fótgangandi og 3% alvarlega slasaðra í bifreið eru að slasast á þessum sama tíma.
  • Hafa þarf í huga og muna að við erum óvarðari á rafhlaupahjólum en mörgum öðrum fararmátum. Líkamsstaða okkar á rafhlaupahjólum með hendur þétt upp að líkamanum þýðir einnig að minna þarf til að missa jafnvægið. Að sama skapi eigum við erfiðara með að bera hendur fyrir okkur ef við dettum. Þetta þýðir að andlitsmeiðsli eru algengari en í t.d. hjólreiðaslysum.
  • Síðast en ekki síst hafa gögn sýnt að mörg börn slasast á rafhlaupahjólum en þau hafa verið allt að 45% þeirra sem leituðu á bráðamóttöku vegna slíkra slysa.

Þarf að bregast við þessu af krafti með sameiginlegu átaki

Sigurður Ingi Jóhannsson sagði að það þyrfti að bregast við þessu af krafti með sameiginlegu átaki. Þessi ferðamáti er nýr af nálinni og við þurfum læra á hann, auka fræðslu og laga regluverk og innviði. Ég nefni hér þrennt sem skiptir miklu máli.

Sigurður Ingi vildi í fyrsta lagi nefna umferðarlögin sjálf. Nú er til umfjöllunar á Alþingi frumvarp sem ég lagði fram um breytingar á lögunum til að auka öryggi notenda smáfarartækja og annarra vegfarenda. Þar er m.a. lagt til að innleiða nýjan ökutækjaflott smáfarartækja í umferðarlög, að ökumenn verði að hafa náð 13 ára aldri og notendum yngri en 16 ára verði gert skylt að nota hjálm og að almennt bann verði við lagt við að breyta hraðastillingum.

Í öðru lagi höfum við lagt áherslu á að bæta innviði. Framlög til uppbyggingar göngu- og hjólreiðastíga hafa aukist á undanförnum árum og áfram verður haldið á sömu braut. Mikilvægi slíkra innviða hefur aukist samhliða hraðri aukningu á umferð smáfarartækja.

Síðast en ekki síst er nauðsynlegt að efla fræðslu með áherslu á það að við sjálf sýnum ábyrgð og fyrirhyggju í umferðinni. Og þar kemur að tilefni þessa ágæta fundar – sem er hin nýja kynningarherferð.

,,Samgöngustofa hefur í samstarfi við fjölmarga aðila – í þetta sinn tryggingafélaginu VÍS – gert áhrifaríkar herferðir og auglýsingar. Minnt okkur á að spenna beltin, nota ekki símana okkar undir stýri eða aka ekki undir áhrifum. Nú er kastljósinu beint að rafskútum. Rétt eins og við notkun annarra ferðamáta – ökutækja, reiðhjóla, mótorhjóla eða hesta – þurfum að sýna varkárni og vera skynsöm. Komum heil heim af rafskútunum,“ sagði Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, á blaðamannfundinum í dag.

Hér á youtube má nálgast auglýsingarnar:

Rafskúta + Áfengi = Klessa - YouTube

Rafskúta + Farsímafitl = Klessa - YouTube

Rafskúta + Moddun = Klessa - YouTube

Rafskúta + Gáleysi = Klessa - YouTube