Ekki verri malarvegir í 60 ár

Morgunblaðið hefur undanfarið verið með ítarlega umfjöllun um ástand vegakerfisins hér á landi.  Í morgun var fjallað sérstaklega um ástand malarvega.  Malarslitlag á þjóðvegum þekkist vart í nágrannalöndum okkar en um 60% af 13.000 km vegakerfi Íslands eru malarvegir.  Niðurskurður í viðhaldi á vegum mun leiða til verulega aukins kostnaðar í framtíðinni.

Haft er eftir Ómari Ranarssyni í Morgunblaðinu að hann hafi aldrei í meira en 60 ár séð verra ástand malarvega en nú. Ómar tekur fram að hann sé ekki að ásaka Vegagerðina, niðurskurður stjórnvalda á fé til vegamála sé megin ástæða þess að vegir grotni niður vegna viðhaldsleysis.  Slæmt ástand malarvega er bæði í byggð á láglendi og einnig á hálendinu.  Til dæmis er Kjalvegur hörmulegur yfirferðar. 

Slæmir vegir auka kostnað við viðgerðir og viðhald bíla landsmanna.  Jafnframt  aukast tafir og óþægindi. Samfélagslegur kostnaður er verulegur vegna niðurskurðar á fé til viðhalds vega og frestun á uppbyggingu vega með bundnu slitlagi.  Sparnaður til vegamála kostar bíleigendur og fyrirtæki verulega fjármuni.

Hreinn Haraldsson vegamálastjóri segir í Morgunblaðinu að Vegagerðin hafi úr takmörkuðu fjármagni að spila.  ,,Aðeins hafi fengist um 65-70% þess fjár sem þarf til að halda vegakerfinu gangandi.  Áhersla hafi verið lögð á að halda bundna slitlaginu í lagi og þá hafi malarvegir og fáfarnari vegir orðið útundan.  Þannig sé ástandið um allt land.” 

Fram kemur að framlög til viðhalds vega sem Vegagerðin hefur til ráðstöfunar séu um fimm milljarðar króna.  Um 2,3 milljarðar renna í viðhald á bundnu slitlagi og um 750 milljónir króna til viðhalds malarvega.