Eldhætta í Fisker Karma?

Eftir brunann sem varð í Chevrolet Volt bíl viku eftir að hann hafði verið árekstursprófaður í Bandaríkjunum hóf bandaríska umferðaröryggisstofnunin rannsókn á geymum í öllum rafbílum og hugsanlegri eldhættu sem af þeim kynni að stafa. Henrik Fisker framleiðandi hins rafknúna lúxusbíls, Fisker Karma brást mjög snögglega við, innkallaði alla bílana og skipti út rafgeymakerfinu í hverju einasta eintaki. Verkinu lauk hann á aðeins tveimur vikum.

Það var skömmu fyrir jól að tæknimenn hjá Fisker Automobile uppgötvuðu ágalla í geymunum sem hugsanlega gæti leitt til skammhlaups og bruna. Hin hugsanlega hætta fólst í því að kælivökvarásir í geymakerfinu gætu bilað og kælivökvi lekið út og valdið skammhlaupi. Engin raunveruleg dæmi um slíkt höfðu þó, né hafa komið upp.

Það hljómar vitanlega talsvert flott að tekist hafi að endurnýja geymakerfin í hverjum einasta framleiddum bíl á svo stuttum, tíma. En sannleikurinn er sá að þegar ágallinn uppgötvaðist í nóvember sl. höfðu verið framleiddir einungis 239 Fisker Karma bílar, þar af höfðu rúmlega 40 verið seldir og afhentir kaupendum. Langflestir hinna seldu bíla eru í eigu kvikmyndastjarna, stjórnmálamanna og frægðarfólks á Los Angeles svæðinu í Kaliforníu. Örfáir bílar fyrirfinnast í Evrópu, þar af er einn í eigu Friðriks prins, ríkisarfa í Danmörku.

En það sem innköllunin og viðgerðin sýnir fyrst og fremst er það að framleiðsla og sala á Fisker Karma er miklu hægari en áætlanir gerðu ráð fyrir. Samkvæmt þeim átti ársframleiðslan að vera minnst 12 þúsund bílar þannig að nú ættu að vera til í kring um sex þúsund Fisker Karma bílar í heiminum.

Fisker Karma er fimm metra langur fjögurra sæta lúxusbíll. Hann er alfarið knúinn áfram af tveimur mjög öflugum rafmótorum sem sækja strauminn í háspennurafgeyma. Í bílnum er bensínvél sem knýr öflugan rafal. Þessi ljósavél fer í gang þegar geymarnir tæmast. Drægi bílsins á fullhlöðnum rafgeymunum er einungis um 60 kílómetrar. Fisker Karma er byggður í verksmiðju Valmet í Finnlandi sem áður byggði m.a. Porsche Boxter og Cayman.