Eldsneyti á Íslandi hefur lækkað mun minna en á erlendum mörkuðum

Kórónafaraldurinn hefur í för með sér mikinn efnahagslegan samdrátt sem ekki sér fyrir endann á. Ekkert bólar á samkomulagi um framleiðslukvóta á olíu á milli Saudi Araba og Rússa og bæði löndin hafa aukið framboð sitt á olíumörkuðum samhliða miklum samdrætti í eftirspurn. Mikið framboð í lítilli eftirspurn mun halda olíuverði niðri á næstunni.

Eldsneytisverð til íslenskra neytenda hefur lækkað töluvert undanfarið en mun minna en á flestum öðrum mörkuðum.   Frá miðjum janúar í ár til dagsins í dag hefur bensínlítrinn hjá N1 lækkað um 20,90 krónur og kostar núna 221,90 krónur.  Dísillítrinn hefur lækkað á sama tíma um 18,5 krónur niður í 217,40 krónur.  Í Danmörku hefur bensínlítrinn frá miðjum janúar þar til í dag lækkað að meðaltali um 45 krónur og dísillítrinn um ríflega 35 krónur.  Í Svíþjóð er lækkunin á lítra að meðaltali 43 krónur fyrir bensínið og 29 krónur fyrir dísilolíuna. Veiking íslensku krónunnar skýrir hluta af þessum mikla mun en aukin álagning vegur þyngst. 

Líklega reyna olíufélögin að réttlæta aukna álagningu með með tilvísun í mikinn sölusamdrátt sem fylgir kreppunni.  Costco hefur svarað lækkuðu heimsmarkaðsverði best og líklega mun það auka við markaðshlutdeild þeirra.  Lækkun eldsneytisverðs hefur jákvæð áhrif á eftirspurn almennra neytenda og fyrirtækja til skamms og lengri tíma.  Lægra eldsneytisverð hefur einnig jákvæð áhrif á neysluvísitöluna og þar með verðólguþróun.  Allt eru þetta ríkir hagsmunir neytenda og þjóðfélagsins í heild sem hjálpa til við að draga úr hægagangi efnahagslífsins á ólgutímum.