Eldsneyti dýrast á Íslandi

Samkvæmt samanburði á verðlagningu á bensíni og dísilolíu í 30 löndum njótum við Íslendingar þess vafasama heiðurs að vera þar á toppnum. Íslenskir neytendur borga hæsta verðið fyrir eldsneytið. Noregur kemur fast á hæla okkar.  Þessi olíuframleiðsluþjóð, sem löngum hefur verið helsti birgir íslensku olíufélaganna, er þekkt fyrir hátt eldsneytisverð til neytenda.

Gögnin eru fengin frá systurfélagi FÍB í Bretlandi, Automobile Association (AA), og miðast við verðlagningu á eldsneyti í júlí sl.  Verðin voru uppreiknuð yfir í íslenskar krónur miðað við miðgengi Seðlabanka Íslands í lok júlí. Eldsneytisverðið hjá ÓB þann 25. júlí er notað í þessum samanburði.

Verðmunur á bensínlítra á milli Íslands og Noregs er ekki marktækur þar sem hann er aðeins rúm ein króna. Verðmunurinn er mun meiri á dísilolíunni eða tæpar 11 krónur miðað við næst dýrasta dísillítrann sem fæst einnig í Noregi.

Í lok júli var munurinn á hæsta og lægsta verði á höfuðborgarsvæðinu 40 krónur á bensínlítra og 37,40 krónur á dísillítra.  Costco bauð ódýrasta eldsneytið en N1 og Olís voru með hæsta verðið.  Verðmunurinn er mestur á höfuðborgarsvæðinu  Verðið á tveimur stöðvum Atlantsolíu, tveimur stöðvum Orkunnar og þremur stöðvum ÓB sem bjóða ódýrasta verðið fyrir utan Costco var ríflega 32 krónum undir algengasta verði á dælustöðvum þessara sömu félaga og um 37 krónum undir hæsta verðinu hjá N1.  Margir viðskiptavinir eru með afslátt á lítraverði á öðrum stöðvum en þessum sjö ódýrari. Verðmunurinn utan höfuðborgarsvæðisins er mestur í kringum 10 krónur á lítra.

Í Noregi getur verið verulegur verðmunur á milli stöðva. Oft er um að ræða staðbundna samkeppni og einnig getur verið talsverður verðmunur á sömu stöð eftir vikudegi eða tíma dags. Um og yfir 30 króna verðmunur á lítra er eitthvað sem norskir neytendur þekkja vel.

Auðugri löndin er oftast með hærra eldsneytisverð en þar eru Bandaríkin undantekning.  Skattar á eldsneyti hafa mikið að segja varðandi verðlagningu enda eru nánast öll ríki að kaupa bensín og dísilolíu á sama verði á heimsmarkaði. Annað sem hefur áhrif á verð er stærð markaðar, samkeppni og fjarlægð frá birgjum.

Til viðmiðunar þá eru fastir skattar á hvern bensínlítra hér á landi 82,85 krónur og síðan leggst 24% virðisaukaskattur ofan á innkaupsverðið, skattana og álagninguna.  Fastur skattur á dísillítra er 74 krónur og 24% í virðisaukaskatt.  Í Noregi eru fastir skattar á bensinlítra 88 krónur (umreiknað með gengi í lok júlí) og 70,65 krónur á dísillítra.  Virðisaukaskatturinn í Noregi er 25%.

Samanburður eldsneyti   Samanburður eldsneyti