Eldsneyti úr vatni - loksins?

Evrópskir vísindamenn m.a. við Stokkhólmsháskóla eru að þróa glænýja aðferð til að framleiða vetni úr vatni. Aðferðin er talin geta orðið miklu afkastameiri og ódýrari en rafgreining. Talið er að hún geti þegar fram líða stundir gert heiminn minna háðan olíu, kolum og öðru jarðefnaeldsneyti en nú. Grein um þetta hefur nýlega birst í vísindatímaritinu Nature. Höfundur hennar er sænski vísindamaðurinn Gustav Berggren við lífeðlisfræði- og lífefnafræðistofnun Stokkhólmsháskóla.

Frumefnið vetni er uppistaðan í vatni en vatn er í raun samband tveggja vetnisatóma og eins súrefnisatóms (H2O). Algengasta aðferðin hingað til við að skilja vetnið frá súrefninu í vatninu er rafgreining. Vetnið má síðan nýta sem eldsneyti á brunahreyfla eða leiða það í gegn um efnarafal í rafbílum. Efnarafallinn breytir því í raforku á ný sem knýr bílinn áfram. Gallinn við þetta er bara sá að orkunýtingin í þessu ferli (Vatn – rafgreining- vetni- efnarafall-rafmagn) er ekki góð og aðeins brot af því rafmagni sem upphaflega var notað til að ná í vetnið, skilar sér til baka úr efnarafalnum til að knýja bílinn.

Þá þarf talsvert af platínu í efnarafalinn til að hann geti breytt vetninu í rafstraum á ný og magn þessa rándýra eðalmálms er takmarkað hér á jörð. Allt þetta umstang við rafgreininguna og efnarafalana þýðir það einfaldlega að útilokað er að stórfelld raforkuframleiðsla beri sig með þessum aðferðum.

Annað mál er með nýju aðferðina. Hún nefnist Biomimetic assembly and activation of [FeFe]-hydrogenases og er sögð felast í því að vetnið er skilið frá súrefninu með því að nota gerviefnaefnahvata og græna þörunga. Gustav Berggren segir í samtali við Motormagasinet í Svíþjóð að þeir vísindamennirnir hafi byggt efnarafal sem nýti tilbúið enzými í stað platínu sem lofi mjög góðu. En ef allt fari á besta veg þá muni verða hægt að fjöldaframleiða efnarafala sem verði eingöngu úr þörungum, lífrænum efnum og járnjónum. Þessir efnarafalar verði margfalt afkastameiri til rafmagnsframleiðslu en nútíma platínuefnarafalar og hráefnið á þá verði bara hreint vatn.