Eldsneytið hækkar og hækkar

Stöðugt berast fréttir af hækkun á heimsmarkaðsverði á olíu jafnhliða gengishruni íslensku krónunnar.  Verð til neytenda hefur hækkað langt umfram það sem áður hefur þekkst.  Þrátt fyrir ítrekaðar kröfur FÍB og fl. hafa stjórnvöld ekki tekið í mál að lækka – ekki einu sinni tímabundið – miklar opinberar álögur á bensín og dísilolíu.  

Síðasta hækkun var í byrjun þessarar viku um 3 krónur á lítra.  Sjálfsafgreiðsluverð á bensíni á þjónustustöð er núna 177,40 krónur á hvern lítra en dísilolíulítrinn kostar 193,80.  Þjónustuverð á dísilolíu er komið í 198,80 krónur. Í liðnum júní mánuði var meðalverð hvers bensínlítra til íslenskra neytenda 36,30 krónum hærra en það var í janúar síðastliðinn.  Á sama tíma hefur heimsmarkaðsverð á bensíni hækkað um 27,70 krónur.  Útsöluverð á lítra af dísilolíu hefur hækkað um tæpar 50 krónur, fór úr 142,10 krónum að meðaltali í janúar sl. í 191,95 krónur í júní.  Heimsmarkaðsverðið á dísilolíunni hækkaði um 39,35 krónur á hvern lítra á sama tíma. 

FÍB hefur tekið saman þróun heimsmarkaðsverðs og álagningar á bensíni og dísilolíu frá 1. janúar 2007 til 30. júní 2008 og uppfært með vísitölu neysluverðs til verðlags í  júní 2008.  Eldsneytisverð á heimsmarkaði, eldsneytisskattar og álagning olíufélaganna er grunnur verðs á bílaeldsneyti til neytenda.  Kostnaður neytenda vegna álagningar olíufélaganna og flutningskostnaðar á hvern lítra af bensíni var minnstur í apríl 2007 en mestur í janúar 2008.  Munurinn að teknu tilliti til verðlagsþróunar er um 14 krónur á hvern lítra á milli þessara mánaða.  Álagning á bensín og dísilolíu og flutningskostnaður fór lækkandi í apríl og maí sl. en hækkaði aftur í júní.  Hækkun á dísilálagningu var tæpar 6 krónur í júní á hvern lítra samanborið við maí en álagning á bensín hækkaði um ríflega 3,50 krónur á lítra.  

 

Í útreikningunum FÍB er miðað við daglegt markaðsverð á bensíni og dísilolíu á Rotterdam-markaði, daglegt miðgengi Bandaríkjadals gagnvart íslenskri krónu hjá Seðlabankanum og sjálfsafgreiðsluverð á bensíni og dísilolíu á þjónustustöð (N1, Olís og Shell).  Hlutur olíufélags í línuritinu er með virðisaukaskatti.