Eldsneytisbreyting rýrir ábyrgð

Toyota á Íslandi sendi frá sér tilkynningu í byrjun vikunnar, þar sem skilyrði fyrir verksmiðjuábyrgð eru áréttuð. Í tilkynningunni segir að verksmiðjuábyrgð geti fallið niður á ýmsum hlutum sem bila í bílnum eftir að honum hafi verið eftirábreytt fyrir annað eldsneyti, t.d. metangas.

Þessir hlutir sem um ræðir eru t.d. stimplar, ventlar, blokk og stimplar og fleiri hlutar vélar, eldsneytiskerfi og einstakir hlutar þeirra og jafnvel burðarvirki bíla, yfirbygging og lakk, ef átt hefur verið við framangreint við breytingarnar.

Toyota segir í tilkynningunni að í henni felist engin afstaða til einstakra orkugjafa fyrir bifreiðar yfirleitt heldur einungis það að hluti framleiðandaábyrgðar á Toyota og Lexus bifreiðum fellur niður ef bílunum er breytt til að geta notað annað eldsneyti en framleiðandi gerir ráð fyrir. Tilkynningin er svohljóðandi:

„Af gefnu tilefni vill Toyota á Íslandi benda þeim sem eiga Toyota- og Lexusbifreiðar sem eru í ábyrgð á það að ef notað er annað eldsneyti á bifreiðar af þessum tegundum eða þeim breytt þannig að þær geti notað annað eldsneyti en það sem bifreiðin var gerð fyrir, þar með talið metan, fellur hluti ábyrgðar niður.

Ábyrgð fellur niður á öllum íhlutum vélar t.d. blokk, stimplum, sveifarás, heddi, ventlum, rafal o.fl. Einnig fellur niður ábyrgð á skynjurum og liðum sem stýra vélbúnaði vélar svo sem stöðunemum og pústnemum. Þá má nefna að ábyrgð fellur niður á íhlutum tengdum eldsneytiskerfi svo sem spíssum og einnig fellur pústkerfi úr ábyrgð. Þá fellur niður ábyrgð á burðarvirki, yfirbyggingu og lakki ef átt er við þessa hluta bílsins við breytinguna.

Allar nýjar Toyota- og Lexusbifreiðar sem fluttar hafa verið inn af Toyota á Íslandi frá 1. janúar 2010 eru með ábyrgð í 5 ár eða í 160.000 km akstur, hvort sem fyrr verður. Ábyrgðarskilmálana má sjá á www.toyota.is og www.lexus.is.

Toyota á Íslandi er með þessu ekki að taka afstöðu til einstakra orkugjafa en vill aðeins vara við því að hluti ábyrgðar fellur niður ef notað er annað eldsneyti á þá bíla sem fyrirtækið flytur inn og selur en framleiðandi gerir ráð fyrir.“