Eldsneytisskattar? Nei takk, ómögulega

http://www.fib.is/myndir/USA-traffic.jpg
Um langt skeið hafa verið uppi raddir meðal bandarískra umhverfisverndarsinna, þingmanna og umhverfissinnaðs bílaáhugafólks um að setja á eldsneytisskatta til að fá Bandaríkjamenn til þess að skipta yfir í minni og neyslugrennri og þar með umhverfismildari bíla. Þeir sem með löggjafarvaldið fara hafa þó aldrei beitt sér af neinum krafti fyrir því að taka upp eldsneytisskatta því slíkt hefur verið talið jafngilt pólitísku sjálfsmorði hingað til.
Á því virðist engin breyting hafa orðið því að ný rannsókn staðfestir að hinn almenni Bandaríkjamaður sem gjarnan lýsir áhyggjum sínum af umhverfismálum á kaffistofunni í vinnunni er hreint ekki tilbúinn til þess að greiða hærri skatta til að laga ástandið í umhverfismálunum. http://www.fib.is/myndir/USA-Umferd2.jpg

Tæpur helmingur (48%) aðspurðra í nýrri alríkiskönnun segist ekki tilbúinn að greiða eina einustu krónu í eldsneytisskatt til að draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda. Einungis 18 prósent aðspurðra kveðst tilbúinn til að greiða minnst 50 sent á hvert eldsneytisgallon eða um tíu krónur á hvern lítra.

Um það bil fimmtungur CO2 útblásturs af mannavöldum í Bandarikjunum er talinn koma frá fólksbílum og pallbílum. Framkvæmdastjóri þeirrar stofnunar sem gerði könnunina segir að sé mönnum alvara með að draga úr CO” útblæstri af mannavöldum verði að búa til einhverskonar hvata til þess að draga úr notkun eyðslufrekra bíla og auka hlut hinna sparneytnu. Hann segir ljóst af svörum í könnuninni að meintar áhyggjur Bandarísks almennings yfir hlýnun á jörðinni séu stórlega ýktar. Þær áhyggjur risti greinilega grynnra en látið sé í veðri vaka.

Könnunin sýnir að andstaða við hærri umhverfisskatta á eldsneyti sé sérstaklega hörð meðal ýmimssa minnihlutahópa sem telji að slíkir skattar komi hlutfallslega harðar niður á þeim sem minna mega sín fjárhagslega.

Í könnuninni var svarendum sagt að þingið væri að undirbúa lög um hækkaða umhverfisskatta í því skyni að hvetja Bandaríkjamenn til að spara eldsneyti og draga með því úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda. Síðan var spurt hversu háa bensínskatta fólk væri sátt við að greiða. Svarmöguleikar voru: Minna en 50 sent, 50 sent, einn dollar, tvo dollara, fimm dollara eða átta dollara eða meir.18 prósent voru tilbúin að greiða 50 sent eða meir, átta prósent einn dollar eða meir og tvö prósent voru tilbúin að greiða tvo dollara eða meir.

Andstæðingar bensínskatta voru flestir (56%) á svæðinu umhverfis vötnin miklu þar sem stór hluti bandarískrar bílaframleiðslu fer fram. Næst flestir voru þeir í Nýja Englandi (51%) og í miðríkjunum (50%). Þegar svarendur höfðu verið upplýstir um að ef einkabílum yrði útrýmt í Bandaríkjunum myndi útloftun gróðurhúsalofttegunda einungis dragast saman um fimmtung harðnaði andstaðan gegn bensínsköttum enn frekar. 58 prósent þeirra sem áður höfðu verið tilbúnir að greiða hærra bensínverð gerðust þá fremur fráhverfir því og 42 prósent mjög fráhverfir því að borga yfirleitt nokkurn hlut í aðgerð sem hefði sáralítil jákvæð áhrif.

Stjórnandi rannsóknarinnar segir að í mörgum skoðanakönnunum sem gerðar hafi verið um hlýnun á jörðinni hafi verið spurt rangra spurninga. Það sé tilgangslaust að spyrja Bandaríkjamenn hvort aðgerða sé þörf í loftslagsmálum heldur hvort fólk sé tilbúið að fórna einhverju til að laga ástandið og þá hve miklu. Hægt er að hlaða niður spurningunum hér.