Eldsneytisskattarnir á mikilli uppleið

Eftir fimm króna hækkun á eldsneytislítranum er algengt verð á bensíni í sjálfsafgreiðslu kr. 230,90. Bensínverð  á Íslandi er þar með orðið eitt það hæsta í manna minnum. Hið háa verð er að sjálfsögðu hægt að rekja til hás verðs á heimsmarkaði en þó er hlutdeild ríkisins í verðinu nú sú hæsta nokkru sinni. Hið ofurháa verð er farið að hafa slæm áhrif á fjölmörgum sviðum þjóðlífsins, á atvinnulif, á fjárhag heimilanna og á félagsleg samskipti. Umferð hefur mjög dregist saman og svo mjög að sá tekjuauki sem hið opinbera sá fyrir sér með stórhækkun eldsneytisgjalda fyrir og um síðustu áramót er meira og minna fyrir borð borinn með sama áframhaldi

FÍB hefur eindregið óskað eftir því að ríkið lækki álögur sínar á eldsneyti til að freista þess að snúa hinni neikvæðu þróun á þjóðlífið við. Bensínverð hefur verið að stíga úr tæpum 100 dollurum tunnan og er um þessar mundir um 115 dollarar. Á sama tíma hefur gengi dollarans sveiflast milli 69 upp í 74 krónur. Þegar svona sveiflur eru, hlýtur að teljast eðlilegt að hagstjórnin grípi inn í og reyni að draga það úr ofursköttum sínum á eldsneytið, en hver króna sem eldsneytið hækkar á heimsmarkaði verður að um það bil 2,50 til neytenda hér.

Á grafinu með þessari frétt má sjá þróun álagningar skatta og álagingar olíufélaganna á bensín frá 2005 til byrjunar þessa árs miðað við vísitölu neysluverðs. Sjá má að meginhreyfing álagningar olíufélaganna hefur heldur verið niður á við meðan skattarnir hafa stigið bratt.

http://www.fib.is/myndir/Alag-og-skattar-vnv.jpg