Eldsneytisverð hærra hér en víðast hvar

„Bifreiðaeldsneytisverð á Íslandi, að undanskildum sköttum og öðrum opinberum gjöldum og að teknu tilliti til flutningskostnaðar og smæðar markaðarins, er hærra en í flestum öðrum vestrænum ríkjum. Með öðrum orðum er munurinn á eldsneytisverði meiri en svo að hann megi útskýra með auknum kostnaði hér á landi, s.s. legu landsins eða veðurfari. Þá sýnir rannsókn Samkeppniseftirlitsins að álagning á bifreiðaeldsneyti í smásölu á Íslandi er hærri en búast mætti við, jafnvel þegar gert er ráð fyrir heildsöluálagningu félaganna sjálfra, smásöluálagningu sjálfstæðra smásala í Bretlandi og raunkostnaði félaganna við kaup, innflutning, birgðahald og dreifingu. Álagning á aðrar eldsneytistegundir virðist hins vegar benda til meiri samkeppni á milli olíufélaganna.“

Þessi orð standa í Markaðsrannsóknaskýrslu Samkeppniseftirlitsins sem birt var í morgun. Skýrslan er mjög athyglisverð og í í henni er raun tekið undir áralanga gagnrýni FÍB á eldsneytismarkaðinn og olíufélögin nánast í einu og öllu. FÍB hefur lengi bent á það hversu taktfast og samræmt „göngulag“ olíufélaganna hefur verið lengstum. Engu hefur verið líkara en þau hafi haft náið samráð um verðlagningu og tímabundin og varanleg afsláttarkjör handa viðskiptavinum sínum. Ef hægt er að tala um samkeppni þeirra í millum er það ef til vill helst um mjög stóra viðskiptavini. Almenningur greiðir hins vegar meira og minna eða öllu heldur niðurgreiði mun betri afsláttarkjör til stóru viðskiptavinanna. Um þetta segir í skýrslunni eftirfarandi:

Þættir sem alla jafna ættu að hafa áhrif á verðákvarðanir keppinauta á virkum samkeppnismarkaði gera það ekki við verðákvarðanir olíufyrirtækjanna á bifreiðaeldsneyti. Verðákvarðanir virðast þannig ekki taka mið af fjölda keppinauta, mismunandi stærðarhagkvæmni, mismiklum kostnaði við dreifingu og birgðahald o.s.frv....“

...“Þegar niðurstöður samkeppnismatsins í kafla 9 hér á eftir eru teknar saman er það frummat Samkeppniseftirlitsins að tilteknar aðstæður eða háttsemi, sem lýst er í köflum 4 til 8 í skýrslunni, takmarki eða hafi skaðleg áhrif á samkeppni á markaðnum. Í stuttu máli er einkum um að ræða eftirfarandi aðstæður eða háttsemi:

  • · Samhæfð hegðun:

Á markaðnum fyrir smásölu bifreiðaeldsneytis eru sterkar vísbendingar um að olíufélögin samhæfi hegðun sína með þegjandi samhæfingu.1 Vísbendingar um samhæfinguna sjást m.a. í því að verð og álagning á bifreiðaeldsneyti, án skatta og annarra opinberra gjalda, eru eins og áður segir há í samanburði við önnur ríki þrátt fyrir að tekið hafi verið tillit til markaðsaðstæðna og afslátta. Jafnframt benda greiningar til þess að verð á bifreiðaeldsneyti fylgi betur hækkun innkaupsverðs en lækkun. Þá virðast verðbreytingar vera leiddar af tilteknum aðilum á bifreiðaeldsneytismarkaðnum, mjög litlar sveiflur eru á markaðshlutdeild og álagningu í sölu bifreiðaeldsneytis í samanburði við eldsneyti sem aðeins er selt fyrirtækjum, stöðugleiki virðist ríkja um verðákvarðanir olíufélaganna og þættir sem að öllu jöfnu hafa áhrif á verð á mörkuðum þar sem samkeppni ríkir (s.s. fjöldi keppinauta, mismikill kostnaður vegna birgðahalds- og dreifingar) gera það ekki á markaðnum fyrir bifreiðaeldsneyti.“

„Álagning á bifreiðaeldsneyti var óeðlilega há sem nemur allt að 18 krónum með virðisaukaskatti á hvern lítra bensíns og 20 krónum með virðisaukaskatti á hvern lítra dísilolíu á árinu 2012. · Á árinu 2014 greiddu neytendur 4.000- 4.500 milljónum króna of mikið fyrir bifreiðaeldsneyti í smásölu, með virðisaukaskatti, þ.e. samanborið við verð sem búast mætti við ef framangreindar aðstæður og háttsemi væru ekki fyrir hendi. Aukin samkeppni myndi leysa úr læðingi krafta sem koma myndu samfélaginu til góða, t.d. með hagkvæmari rekstri olíufélaganna sem stuðlar að lægra verði til neytenda. Gera má þannig ráð fyrir að eldsneytisstöðvum í Reykjavík myndi fækka verulega í umhverfi virkrar samkeppni þar sem fyrrgreindum samkeppnishömlum hefur verið rutt úr vegi.“