Elstu bílarnir á Íslandi

Meðalaldur bíla á Íslandi er sá hæsti í Evrópu um þessar mundir. Árið 2011 var meðalaldur alls  íslenska bílaflotans 12,5 ár og fólksbifreiða 11,6 ár og hefur ekki verið hærri á liðnum áratugum. Þetta má sjá á súluriti frá Umferðarstofu hér að neðan.  

Samkvæmt nýrri samantekt frá ACEA, sem FÍB hefur borist er meðalaldur bíla í Evrópusambandinu  hins vegar rúmum fjórum árum lægri eða einungis 8,3 ár. Hæstur meðalaldur bíla er í Eistlandi, 12 ár. Lægstur er hann á Írlandi, 6,3 ár. Sjá graf hér að neðan.

FÍB hefur af þessu tilefni gert alvarlegar athugasemdir við 19. grein bandormsins svonefnda, eða frumvarp ríkisstjórnarinnar um ráðstafanir í ríkisfjármálum. 19. greinin umrædda lýtur að vörugjaldaflokkum nýrra bíla. FÍB telur eðlilegt að lækka alla aðalflokkana til að tryggja eðlilegri endurnýjun bílaflota heimilanna. Hún hefur sáralítil verið allt frá efnahagshruninu. Eina ljósglætan er sú að með stórauknum fjölda erlendra ferðamanna hafa bílaleigurnar verið langsamlega stærsti kaupandi nýrra bíla á Íslandi undanfarin ár. Þessir bílar eru svo seldir almenningi eftir um það bil tveggja ára notkun. Nýlegir notaðir bílaleigubílar eru þannig meginhluti þeirrar endurnýjunar sem átt hefur sér stað á fólksbílaflotanum frá efnahagshruninu til þessa dags.

Þetta er verulega mikið áhyggjuefni þar sem nýjustu bílarnir eru best búnir öryggistækjum og verja þar með ökumenn, farþega og aðra vegfarendur mun betur en eldri árgerðir.  Það er einnig staðreynd að nýrri árgerðir fólksbifreiða eru mun neyslugrennri á eldsneyti og þar með minna mengandi en eldri árgerðir.  Bílar framleiddir eftir árið 2007 eyða að meðaltali 25% minna eldsneyti en eldri árgerðir.  Með örari endurnýjun bílaflotans er verið að vinna að auknu  öryggi, heilbrigði og lýðheilsu og einnig að draga úr slysum og draga úr kostnaði við heilbrigðiskerfið.

http://www.fib.is/myndir/Medalaldur-bila-IS.jpg
http://www.fib.is/myndir/Aldur-bila-EU.jpg