Endurbætur á Suðurlandsvegi að hefjast

http://www.fib.is/myndir/Hellisheidi.jpg

Á Hellisheiði.

Samgönguráðherra og vegamálastjóri kynntu sveitarstjórnarmönnum á Suðurlandi í gær nýja áætlun um endurbætur á Suðurlandsvegi milli Reykjavíkur og Selfoss. Samkvæmt henni verður 2+2 vegur frá Reykjavík að Litlu kaffistofunni. Þaðan og á Kambabrún verður 2+1 vegur með víravegriði milli akstursstefna og núverandi 2+1 kafli um Svínahraun verður jafnframt breikkaður úr 14 metrum í 15,5 m. Frá Kambabrún að Selfossi verður svo 2+2 vegur.

Heildarkostnaður við verkið er áætlaður kringum 15,9 milljarðar króna. Til ráðstöfunar á þessu ári verður kringum einn milljarður og verður fyrst boðinn út tvöföldun kaflans milli Lögbergsbrekku og Litlu kaffistofunnar og síðan kafli næst Vesturlandsvegi. Nánar má lesa um þetta á heimasíðu Vegagerðarinnar.