Endurkröfur á tjónvalda í umferðinni námu 143 milljónum króna árið 2020

Samþykktar end­ur­kröf­ur á tjón­valda í um­ferðinni námu alls tæp­um 143 millj­ón­um króna árið 2020 og tæp­um 96 millj­ón­um árið 2019 að því fram kemur í tilkynningu frá endurkröfunefnd.

Ölvun tjón­valds hef­ur jafn­an verið al­geng­asta ástæða end­ur­kröfu. Þá hef­ur lyfja­áhrif tjón­valda sem ástæða end­ur­kröfu, einkum vegna áv­ana- og fíkni­efna, mjög farið hlut­falls­lega fjölg­andi á und­an­förn­um árum.

Fram kemur að nefndinni bárust 130 mál til úrskurðar á árinu 2020 og samþykkt­ar end­ur­kröf­ur að öllu eða ein­hverju leyti voru 119. Á árinu 2019 voru málinu aðeins færri, alls 126,  og samþykkti nefndin endurkröfu að öllu leyti eða að hluta í 114 málum.

Hæstu end­ur­kröf­urn­ar árið 2019 námu um 5,5 millj­ón­um króna sam­tals, næst hæsta 5 millj­ón­um króna og sú þriðja hæsta tæp­ar 4,3 millj­ón­ir króna. Alls voru 42 end­ur­kröf­ur að fjár­hæð kr. 500.000.- eða meira á ár­inu 2019. Tvær hæstu end­ur­kröf­urn­ar í fyrra voru 6,5 millj­ón­ir króna hvor fyr­ir sig, sú næst hæsta 6 millj­ón­ir króna og sú þriðja hæsta tæp­ar 4,8 millj­ón­ir króna. Á ár­inu 2020 voru 56 end­ur­kröf­ur að fjár­hæð kr. 500.000 eða meira.

Árið 2008 skipaði þáverandi viðskiptaráðherra nefnd sem falið var að semja frumvarp til laga um ökutækjatryggingar sem kæmi í stað XIII. kafla gildandi umferðarlaga, nr. 50/1987. Ákvæði um ökutækjatryggingar voru þannig færð í sérlög, nr. 30/2019. Endurkröfunefnd er skylt að taka saman skýrslu um störf sín, sbr. 3. mgr. 23. gr. reglugerðar nr. 1244/2019 um ökutækjatryggingar. Er skýrslan send fjármála- og efnahagsráðherra, en afrit er jafnframt sent Fjármálaeftirlitinu, bifreiðatryggingafélögunum, FÍB og SFF að ákvörðun nefndarinnar.

Á síðastliðnum árum hefur fjöldi mála sem komið hefur til kasta nefndarinnar frá ári til árs jafnan verið nokkuð sveiflukenndur. Þannig verða endurkröfur ekki nema að nokkrum hluta raktar til tjónsatvika, sem urðu á því ári, er nefndin fékk mál til meðferðar. Oft hafa tjónin, sem nefndin fjallar um, orðið a.m.k. einu eða tveimur árum áður. Þá liggur og fyrir, að félögin safna að jafnaði málum saman og senda nefndinni. Getur í slíkum tilvikum orðið nokkuð tilviljanakennt, hvorum megin áramóta slíkar málasendingar falla.

Af þeim 114 málum, þar sem mælt var fyrir um endurkröfu á árinu 2019, voru 50 mál vegna ölvunar, eða tæp 44% málanna. Næst algengasta ástæða endurkröfu var lyfjaáhrif. Slík tilvik voru 46 á árinu 2019, eða í rúmum 40% málanna. Í 23 málum voru ökumenn endurkrafðir sökum réttindaleysis.

Vegna ofsa- eða hættuaksturs voru fjórir ökumenn endurkrafðir og fjórir vegna stórfellds vanbúnaðar ökutækisins eða farms þess. Í málunum 119 á árinu 2020 var mælt fyrir um endurkröfu vegna ölvunar í 69 málum, eða í um 58% málanna. Lyfjaáhrif var næst algengasta ástæða endurkröfu á árinu 2020, 67 tilvik eða í um 56% málanna. Réttindaleysi ökumanns var ástæða endurkröfu í sex málum, tveir ökumenn voru endurkrafðir vegna glæfra- eða hættuaksturs, einn vegna vanbúnaðar ökutækis og einn vegna brots á varúðarreglu og notkun farsíma.

Fram kemur í tilkynningunni að ökumenn virðast almennt gera sér grein fyrir því, að umferðarlagabrot ökumanna, svo sem ölvunarakstur, ofsa- og hættuakstur o.s.frv., geti haft í för með sér ökuleyfissviptingu og refsingu í formi sektar eða fangelsis. Þá sýnist fólk einnig nokkuð meðvitað um það, að eigið tjón tjónvalds, sem verður í slíkum tilvikum, þurfi tjónvaldur iðulega að bera sjálfur.

Þá segir að margir virðast hins vegar ekki átta sig á því, að afleiðingar fyrir brotlegan ökumann eru ekki tæmandi taldar með þessu, heldur kunni vátryggingafélagið að eignast endurkröfurétt á hendur þeim, sem tjóni olli af ásetningi eða stórkostlegu gáleysi. Til að upplýsa almenning um þetta og í forvarnarskyni hefur endurkröfunefndin iðulega leitast við að koma á framfæri upplýsingum um störf sín við ýmsa aðila, þ.m.t. við fjölmiðla.