Engar leiðréttingar á gengislánunum eftir 16. júní nk?

Skuggaleg teikn eru nú komin hátt á loft varðandi gengistryggðu lánin sem fjöldi fólks tók fyrir efnahagshrunið og sem ítrekað voru dæmd ólögleg. Þrátt fyrir endurtekna dóma um ólögmæti þess að gengistryggja lánin við tiltekna erlenda gjaldmiðla eða myntkörfur, hafa lánafyrirtæki dregið lappirnar með leiðréttingar út í hið óendanlega og fyrningarfrestur uppgjörskrafna er að renna út. Verði frumvarp um að lengja í fyrningarfrestinum ekki afgreitt sem lög frá Alþingi fyrir þinglok, rennur þessi fyrningarfrestur út þann 16. júní nk. og fjármálafyrirtæki eins og Lýsing stendur uppi með pálmann í höndunum og þarf ekki að leiðrétta nema hluta af lánasafni sínu þrátt fyrir að lánakjörin hafi verið dæmd ólögmæt. Lántakendurnir sitja uppi með skaðann.

Einar Hugi Bjarnason hæstaréttarlögmaður vekur athygli á þessu í grein í Fréttablaðinu sl. föstudag. Hann segir að nái Alþingi ekki að afgreiða frumvarpið um að lengja fyrningafrest uppgjörskrafna þessara lána til 16. júní 2018 sé stórslys í uppsiglingu. Hættan á því að kröfur lántakenda á hendur fjármálafyrirtækjunum fyrnist nú í sumarbyrjun sé yfirvofandi og raunveruleg.  Einar Hugi gagnrýnir einnig Lýsingu fyrir að hafa nýlega fallið frá áfrýjun til Hæstaréttar í prófmáli sem höfðað var á grundvelli gengislánasamstarfs um úrlausn mála við Samkeppniseftirlitið. Niðurstaða í Hæstarétti hefði dregið úr efasemdunum og skapað fordæmi varðandi réttmæti útreikninga í uppgjörum Lýsingar.

Það er mjög gagnrýnivert framferði af hálfu lánafyrirtækja að túlka dóma Hæstaréttar frá 16. júní 2010 um ólögmæti gengistryggðra bílalána á sinn eigin hátt við uppgjörsútreikninga. Þeirra útreikningar virðast leiða til verri niðurstöðu fyrir lántakendur en Hæstaréttardómar hafa gefið tilefni til. Þessi vinnubrögð geta verið vísbending um að tilgangurinn sé að tefja uppgjör þessara mála framyfir lok fyrningafrestsins þann 16 júní næstkomandi.

Félag íslenskra bifreiðaeigenda skorar á alþingismenn að samþykkja frumvarpið um breytingu á lögum um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 áður en vorþingið rennur sitt skeið.