Engin grenndarkynning

Róttækar breytingar sem verið er að gera á nokkrum umferðargötum í Reykjavík mælast misvel fyrir. Breytingarnar eru hluti áætlunar um að draga úr bílaumferð sem víðast og mest og koma sem flestum upp á það að hjóla, ferðast með strætó og ganga til að komast leiðar sinnar. Þessum markmiðum vilja borgaryfirvöld greinilega ná með því að þrengja að bílaumferð og gera henni erfitt fyrir á umferðaræðum. Ummerki þessarar stefnu má nú sjá einna skýrast á Hofsvallagötu milli Hringbrautar og Hagamels og einnig í Borgartúni, á Snorrabraut og Hverfisgötu.

Hofsvallagata er sú megin umferðaræð sem tengir Mela- og Hagahverfi við Vesturbæinn og reyndar önnur hverfi borgarinnar. Sá kafli hennar sem nú er verið að breyta hefur verið mjög greiðfær enda gatan breið og bein. Með breytingunum hverfa m.a. bílastæði meðfram gangstéttum undir reiðhjólabrautir beggja vegna götunnar og furðulegar eyjar með fánaborgum á vestari götuhelmingi þrengja verulega að bílaumferðinni um hana eins og meðfylgjandi myndir sýna.

Nú hafa  ríflega 40 íbúar við Hofsvallagötuna skrifað undir mótmæli gegn ýmsum þáttum þessara breytinga sem þeir telja að þrengi að þeim og skerði aðgengi að heimilum sínum meira en góðu hófi gegnir. Eftir því sem FÍB fréttir komast næst voru íbúarnir aldrei spurðir hvort þeim litist á breytingarnar eða hvort þeir væru samþykkir þeim. Engin grenndarkynning fór fram á þeim og ennfremur kannast enginn þeirra íbúa við götuna sem FÍB fréttir hafa rætt við, við það að einhver hafi raunverulega óskað eftir þessum breytingum á götunni.

Ekki hefur náðst í Pál Hjaltason formann umhverfis- og skipulagsráðs vegna þessa máls, en Stefán Agnar Finnsson verkfræðingur á umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar staðfesti í gær að engin grenndarkynning hefði farið fram heldur hefði ákvarðanir um breytingarnar á Hofsvallagötunni og öðrum götum sem verið er að breyta á svipaðan hátt, verið teknar á hinum borgarpólitíska vettvangi. Hann sagði að markmiðið væri m.a. að auka öryggi vegfarenda um þessar götur, ekki síst þeirra gangandi og hjólandi. Aðspurður um hvort einhver umferðartalning eða öryggismat hefði farið fram, sem ákvörðunin byggðist á, sagði Stefán svo ekki vera. En talningar annarsstaðar um borgina bentu til vaxandi fjölda hjólreiðafólks í umferðinni. En gatan væri mjög breið og býður upp á hrað- og framúrakstur og með því að mjókka götur, hægðist á ökuhraða og öryggi mjúku umferðarinnar ykist.

Stefán sagði það hafa verið á stefnuskrá borgaryfirvalda að fjölga hjólreiðastígum. Í umræðunni hefði verið að fara í viðamiklar og dýrar framkvæmdir á Hofsvallagötunni. „En vegna kostnaðar hafa menn ekki alveg lagt í það en viljað fara í einkonar skemmri skírn í því að bæta þarna öryggið með því að þrengja hana og koma fyrir hjólreiðastíg á þessum kafla sem nú er verið að vinna í. Hugsunin til lengri tíma litið er sú að breytingin nái alla leið niður á Ægisíðuna.“

http://www.fib.is/myndir/Hofsv2.jpg

Hjólreiðabrautir verða sínu hvoru megin götunnar. Myndin er tekin í suðurátt að Melabúðinni.

http://www.fib.is/myndir/Hofsv3.jpg
Meðfram vestanverðri götunni er verið að ganga frá „eyjum“ fyrir fánaborgir sem skaga út í akbrautina til suðurs.
http://www.fib.is/myndir/Hofsv4.jpg
Bungan framundan er ekki hraðahindrun fyrir reiðhjól, heldur eins konar brú út í „eyjuna.“ Við hana eiga strætisvagnar að stansa til að taka upp farþega og um leið að loka akreininni fyrir bílaumferð á meðan.
http://www.fib.is/myndir/Hofsv5.jpg
Hér er búið að setja hólka fyrir fánastengur í götuna. Verið var að ganga frá fimmtu fánaborginni skammt frá horni Hagamels og Hofsvallagötu þegar myndin var tekin.