Engin viðbrögð stjórnvalda við tímamótadómi

Eftir tímamótadóm Héraðsdóms Reykjavíkur sl. föstudag í máli fjármögnunarfyrirtækisins Lýsingar gegn Jóhanni Rafni Heiðarssyni og ábyrgðarmanni hans ríkir nú fullkomin óvissa um framhaldið þar til Hæstiréttur fellir sinn dóm. Lánveitandinn Lýsing hefur áfrýjað dómnum. Viðskiptaráðherra hefur sagt fjölmiðlum að ríkisstjórnin ætli ekkert að aðhafast fyrr en dómur hæstaréttar er fallinn.

Niðurstaða Héraðsdóms Reykjavíkur í málinu er í stuttu máli sú að ólöglegt sé að verðtryggja lán í íslenskum krónum við gengi erlenda gjaldmiðla. Það lán sem um er fjallað í dómnum var af hálfu lánafyrirtækisins tengt myntkörfu, þ.e. gengi nokkurra erlendra gjaldmiðla. Það var hins vegar að öllu leyti öðru í íslenskum krónum. Afborganir, vextir og verðbætur af því, eins og öðrum svokölluðum gjaldeyrislánum, voru í íslenskum krónum. Verðtrygging fjárskuldbindinga er hins vegar einungis leyfð lögum samkvæmt með tengingu við neysluvísitölu. Því er þessi gengistrygging ólögleg samkvæmd dómi héraðsdóms. Þetta þýðir á mannamáli það að lánin sem almenningur tók og sögð voru erlend lán, voru bara rétt og slétt íslensk lán, greidd út í íslenskum krónum og afborganir, vextir og verðbætur rukkað í íslenskum krónum, en með ólöglegri verðtryggingu, byggðri á gengi erlendra gjaldmiðla.

 Talið er að líkleg upphæð gengistryggðra lána til íslenskra heimila sé 250 til 300 milljarðar króna, bæði húsnæðislán, bílalán og neyslulán. Lánafyrirtækin hafa aðspurð, svipað og stjórnvöld, sagst ætla að bíða átekta með hugsanlegar aðgerðir og breytingar þar til hæstaréttardómur er fallinn. Því ríkir nú alger óvissa um afdrif þessara lána: Hvað eiga lánagreiðendur að gera? Halda áfram að moka í ólöglega gengistryggingarhít lánafyrirtækjanna? Eða hætta bara að borga?

„Óvissan er auðvitað óþolandi,“ segir Runólfur Ólafsson framkvæmdastjóri FÍB. Hann segir að margsinnis en því miður árangurslítið hafi verið óskað eftir því að stjórnvöld kæmu að þessum málum. „Nú verða þau að taka afstöðu og ákveða með hvaða hætti eigi að taka á málum þeirra lántakenda sem nú eru með mál sín í algerri óvissu. Hvað varðar mögulegar ofgreiðslur lántakenda og hugsanlegar endurgreiðslur hlýtur að vakna spurning um hver staða þessara lánafyrirtækja er til lengri og skemmri tíma?  Hver er staða þeirra fjölmörgu sem hafa verið sviptir afnotum af bílum á grundvelli málatilbúnaðar sem héraðsdómur telur ólögmætan?"

Álit fjölmargra, þar á meðal margra virtra lögmanna á ólögmæti „erlendu“ lánanna hefur lengi legið fyrir. Meðal þeirra sem hafa verið þeirrar skoðunar alla tíð eru menn sem komu að því að semja sjálf verðtryggingarlögin. Það getur ekki verið í neins þágu að upp komi nú eitthvert endalaust argaþras og hersveitir lögfræðinga verði uppteknar við það næstu árin að sækja og verja slík mál með tilheyrandi kostnaði.

Stjórnvöld geta hreinlega ekki leyft sér að sitja bara hjá og segjast ætla að skoða þessi mál einhverntíman – kannski.

Nú eru 18 mánuðir frá því bankahrun varð í samfélagi okkar og það verður að taka á þessu máli og það þótt fyrr hefði verið. Miðað við dóm Héraðsdóms Reykjavíkur þá hafa lánafyrirtækin haft rangt við gagnvart neytendum. Stjórnvöld geta ekki skotið sér undan þessum lánamálum,“ segir Runólfur í samtali við fréttavef FÍB.