Vegmerkingum víða ábótavant

Á Íslandi má finna víða dæmi um óviðunandi vegmerkingar. Það virðist eiga bæði við um skilti og yfirborðsmerkingar vanti, þær séu ónákvæmar eða orðnar óskýrar. Stundum virðist sem ekki sé hreinlega vandað nægilega til verka eða vegmerkingar látnar mæta afgangi. Þetta kemur fram í umfjöllun bílablaðs Morgunblaðsins þar sem fjallað er um vegmerkingar hér á landi

Fram kemur í umfjölluninni að taf­ist hef­ur í um þrjár til fjór­ar vik­ur að veg­merkja veg­arkafla á Sæ­braut í Reykja­vík eft­ir mal­bik­un­ar­fram­kvæmd­ir þar í júní. Ennfremur hafa ábend­ing­ar borist Vega­gerðinni vegna þessa, en hönn­un vegna breyt­inga á staðsetn­ingu veg­merk­ing­anna tafði upp­haf­lega fyr­ir. Votviðri mun hafa staðið í vegi fyr­ir því og beðið er eft­ir þurrki. Þar að auki þarf að vinna verkið að næt­ur­lagi. Í sum­ar hef­ur verið lokið við mal­bik­un á Sæ­braut nærri Katrín­ar­túni, Frakka­stíg og Snorra­braut, en enn er þar lokuð ak­rein sem verið er að breyta.

Sam­kvæmt upp­lýs­ing­um frá Vega­gerðinni er Sæ­braut aðeins brot af því sem merkja þarf í sum­ar og eru önn­ur veg­merk­ing­ar­verk­efni um allt land á und­an áætl­un að sögn, þökk sé góðviðri í upp­hafi sum­ars.

Í umfjöllun bílablaðs Morgunblaðsins er viðtal við Björn Kristjánsson hjá Félagi íslenskra bifreiðaeigenda sem segir að dæmin virðast sýna að ónákvæmar merkingar á þjóðvegum auki líkurnar á slysum og t.d. sé allt of algengt að kantlínur vanti eða að yfirborðsmerkingum sé illa haldið við svo að þær verði ógreinilegar.

Björn segir að víðast hvar á Vesturlöndum virðist merkingum mun betur sinnt og því skiljanlegt að þegar erlendir ferðamenn aka um íslenska vegi viti þeir oft ekki með vissu hvað má og hvað má ekki.

Sem dæmi um alvarlegan galla á íslenskum þjóðvegum nefnir Björn hvernig einbreiðar brýr eru merktar. Yfirleitt eru þær merktar með upphrópunarmerki á rauðum þríhyrningi og skilti sem gefur til kynna að vegur þrengist.

,,Íslendingar fylgja þeirri reglu að sá kemur fyrr að brúnni hafi forgang, en slíkt tíðkist ekki erlendis og útlendingar þekkja ekki þetta fyrirkomulag. Betra væri að hafa merki sem tiltekur að bílar sem koma úr annarri áttinni hafi forgang á meðal bílar úr hinni áttinni þurfi að víkja,“ segir Björn í samtali við bílablað Morgunblaðsins.

Björn segir aldrei brýnna en nú að vanda til verka við vegamerkingar, þegar stefnt sé að því að ýta undir það að almenningur noti reiðhjól eða tvo jafnfljóta til að fara á milli staða innanbæjar.

,,Ónákvæmni og ósamræmi í merkingum geti skapað slæma umferðarmenningu. Ef merkingar eru ekki alveg skýrar læra ökumenn að reglurnar í umferðinni séu óljósar og kannski ekki ástæða til að hlýða þeim alltaf,“ sagði Björn Kristjánsson hjá FÍB í samtali við bílablað Morgunblaðsins.