Verðmunur á eldsneyti á höfuðborgarsvæðinu og landsbyggðinni allt of mikill

Eldsneytisverð er töluvert lægra á höfuðborgarsvæðinu en úti á landsbyggðinni. Lægst er verðið í Costco en til að fá að versla þar eldsneyti þarf að vera meðlimur í Costco-keðjunni. Ódýrast er eldsneyti á bensínstöðvum sem næst eru Costco í Garðabæ. Þetta er þess sem meðal annars kom fram í viðtali við Runólf Ólafsson, framkvæmdastjóra Félags íslenskra bifreiðaeigenda, FÍB, í síðdegisútvarpinu á Rás 2.

Fram kom í viðtalinu að þegar Costco hóf starfsemi sína hér á landi sögðu forvígismenn olíufélaganna að þau myndi ekki bjóða það verð sem viðskiptavinum Costco stæði til boða og líktu verðinu við hreint undirboð. Runólfur sagði að verðið á eldsneyti hjá Cosco sé sambærilegt við það sem við sjáum í nágrannalöndum okkar. Stórmarkaðir víða erlendis bjóða upp á lægra verð á sínum svæðum og eru með hóflega álagningu á eldsneyti. Íslendingar hafa alltaf búið við það að hér er óhófleg álagning á eldsneyti.

,,Olíufélögin hafa lagt hressilega á en auvitað eru háir skattar á Íslandi. Ennfremur hefur álagning alltaf verið mjög há. Ári eftir opnun Costco ákveður minnsta olíufélagið, Atlantsolía, að lækka verðið á stöð sinni við Kaplakrika til samræmis við Costco. Atlantsolía opnar síðan aðra stöð á miðju síðasta ári við Sprengisand. Þar er eldsneyti einnig á sambærilegu verði og er hjá Costco. Þá er eins og það verði einhvers konar sprenging og sem dæmi fylgja ÓB og Orkan í kjölfarið og lækka verðið.. Um tíma hafi svo Dælan verið bjóða þessi verð sem eru mun lægri en við þekkjum frá landsbygðinni," sagði Runólfur í þættinum á Rás 2.

Runólfur sagði verðmuninn á eldsneyti á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni allt of mikinn. Það sé alls ekki sjálfgefið að verðið sé það sama en þarna er munurinn orðinn bara allt of mikill. Hann vildi að minnsta kosti sjá verð í kringum stærstu þéttbýliskjarnana á landsbyggðinni í líkingu við lægstu verð sem sjást á höfuðborgarsvæðinu. Í hinum dreyfðum byggðum landsins þarf fólk að fara mun lengri leið eftir allri þjónustu. Á sama tíma er þetta fólk að greiða 30-40 krónum meira fyrir bensínlítrann, það munar um minna.

Viðtalið við Runólf Ólafsson á Rás 2 má nálgast hér. Viðtalið hefst þegar 17 mínútur eru liðnar af þættinum.