Bílarnir sem mest og minnst bila

Sænska tryggingafélagið Länsförsäkringar hefur gefið út árlega skýrslu um tíðni alvarlegra bilana í nýlegum bílum sem tryggðir hafa verið gagnvart bilunum og um hverskonar bilanir bárust tryggingafélaginu. Skýrslan er byggð á fjögur þúsund tjónatilkynningum til félagsins árið 2015 um bíla af árgerðum 2007-2013.

    Fram kemur í skýrslunni að algengustu orsakir þess að bíll verður óökufær og draga verður hann á verkstæði til viðgerðar eru vélarbilanir. Þær urðu ýmist í kjölfar bilana og skemmda á kælikerfi/ miðstöðvarkerfi bílanna eða af því að tímareimar eða tímakeðjur biluðu eða slitnuðu. Næst algengastar eru bilanir í gíra- og drifbúnaði en samanlagt koma þessar bilanir við sögu í tveimur þriðju allra tjónatilkynninganna.  

    Vélabilanirnar reyndust nema 23 prósentum tilkynntra bilana og þær urðu flestar eftir að bílunum hafði verið ekið 78 þúsund kílómetra eða þar um bil. Stór hluti vélarbilana sem verða í kring um 78 þúsund ekna kílómetra verða vegna þess að tímareimar eða tímakeðjur vélanna slitna eða gefa sig. 

    – Það er greinilegt að vélarbilanir eru umtalsvert algengari í bensínbílum heldur en dísilbílum. Bilanir í útblásturshreinsibúnaði eru hins vegar mun algengari í dísilbílunum heldur en bensínbílunum segir Petra Wahlund, deildarstjóri bilanatryggingadeildar tryggingafélagsins Länsförsäkringar.

    Flestar tilkynntar vélabilanir varða Seat bíla og flestar tilkynningar um bilað kælikerfi og miðstöðvar snúast um Skodabíla. Porsche á svo metið í bilunum á gírkössum og drifi. Í slíkum bilunum er Porsche ótvíræður methafi í samanburði við aðrar tegundir. 

    En þegar allar tegundir bilana eru teknar saman og búið er að gera ráð fyrir fjölda einstakra bifreiðategunda þá eru hinir ótvíræðu ,,sigurvegarar" í þessari tölfræðikeppni (með neikvæðu formerki), Range Rover/Land Rover. Á hæla Róver bílanna koma svo tegundirnar Porsche, Mini, Seat og BMW. Minnst vandræði eru með asísku tegundirnar Kia, Hyundai, Honda, Toyota og Lexus. Lexus hefur svo þá sérstöðu að ef hann á annað borð bilar þá er mjög dýrt að gera við hann. Næst dýrasta tegundinn í viðgerðum eru Porsche og Chrysler er í þriðja sæti. 

    – Þessi skýrsla ætti sérstaklega að geta gagnast þeim semhyggjast kaupa sér notaðan bíl. Vitneskja um bilanahættu og viðgerðakostnað ætti að geta haft áhrif á það hvaða tegund og gerð neytendur að lokum velja. Við vonum að birting skýrslunnar efli vitund bæði almennings og bílaframleiðenda um það að vöruvöndun og gæði skipta máli, segir Petra Wahlund við sænskt bílatímarit..