Enn hærri sektir að ári?

Óhætt er að segja að grein okkar í gær um einangrun íbúa miðbæjarins og bílastæðavanda aðkominna höfuðborgarbúa til menningarnæturhátíðar í miðbænum hafi vakið athygli og viðbrögðin hafa verið misjöfn. Þau hefur mátt sjá víða, m.a. á Facebook og í kommentakerfum Netmiðla og meira að segja í leiðara Fréttablaðsins í dag, miðvikudag. Greinilegt er að orðið „gíslatökur“ fer mjög í taugar andstæðinga einkabílsins sem hengja sig á það sem eitthvert aðalatriði í athugasemdum sínum og kalla síðan FÍB og greinarhöfund nöfnum eins og freku kallana eða bílafasistana, en þeir um það.

Fjallað er um málið í Morgunblaðinu í dag. Þar er rætt við Kolbrúnu Jónatansdóttur framkvæmdastjóra Bílastæðasjóðs sem undrast það að helmingi hærri sektir en í fyrra fyrir að leggja utan skilgreindra bílastæða við BSÍ skuli engum árangri hafa skilað milli ára. „Hvar ætli mörkin séu hjá fólki?“ spyr framkvæmdastjórinn og bætir við að nú verði sest niður og spáð í hvort ekki verði að hækka stöðubrotasektir ennþá meira.

Greinilegt er af þessum orðum að ekki stóð til né stendur til að opna bráðabirgðabílastæði í tengslum við stórviðburði eins og Menningarnótt. Hjálmar Sveinsson formaður umhverfis- og skipulagsráðs staðfefstir það í sömu Morgunblaðsfrétt. Hann segir að ekki hafi verið rætt um að setja upp tímabundin bílastæði á dögum eins og Menningarnótt. „Ekki núna frekar en áður,“ segir hann og bætir við: „Við lítum svo á að fólk sem vill koma í bæinn á þessum degi verði bara að skipuleggja ferðir sínar í miðbæinn með það fyrir augum að það er ekki hægt að leggja frjálst á svona auðum svæðum, þar sem er að öllu jöfnu óheimilt að leggja.“

Þetta eru sérkennileg rök. Ritari þessara orða hefur bæði verið viðstaddur eða verið í næsta nágrenni við mjög stóra menningarviðburði í Evrópu í gegn um árin. eins og risa tónleika og hljómlistarhátíðir sem að umfangi eru á borð við Menningarnótt sl. laugardag og þaðan af stærri og fjölsóttari. Í tengslum við viðburðina er öll umferð til og frá viðburðarsvæðunum þaulskipulögð út frá eðli og þörfum alla tegunda samgangna. Auð svæði í grennd við tónleikasvæðin eru skipulögð sem bráðabirgðabílastæði og strætisvagnar eru í stöðugum akstri fram og til baka til og frá þessum bílastæðum og öðrum fólkssöfnunarsvæðum eins og lesta- og samgöngumiðstöðvum inn á sjálft viðburðarsvæðið. Er menningarnæturhöldurum eitthvað vandara um en t.d. skipuleggjendum Rolling Stones tónleika, eða skipuleggjendum Ljósanætur í Reykjanesbæ sem ætíð skipuleggja bráðabirgðabílastæði og leiðbeina akandi gestum inn á þau í stað þess að deila út yfir þúsund sektarmiðum?

-SÁ