Enn mengunarminni bílar

The image “http://www.fib.is/myndir/Katalysator.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.
Hitamynd af hvarfa við dísilvél.
Loftmengun frá bílum minnkar stöðugt. Ef borin er saman útblástursmengun frá nýjum bíl í dag og sambærilegs nýs bíls að afli og stærð fyrir 15 árum, þá eru skaðleg efni í útblæstri nútímabílsins aðeins um 1/12 þess sem gamli bíllinn gaf frá sér nýr. Enn er verið að herða kröfur um hreinleika útblástursins frá bílum og um síðustu áramót var innleiddur í Evrópu mengunarstaðallinn Euro 4. Samkvæmt honum verða allir nýir bílar að uppfylla kröfur staðalsins frá og með 1. janúar nk. til að fást skráðir.
En nú er í undirbúningi að herða kröfurnar enn því Evrópuráðið hefur lagt fram tillögu að nýjum staðli með enn harðari mengunarmörkum; Euro 5. Upphaflega stóð til að innleiða Euro 5 staðalinn 2008 en ólíklegt þykir að það takist fyrr en 2009 eða 2010. Þegar eru þó til fjölmargir bílar sem uppfylla kröfur Euro 5 staðalsins. Í útblæstri þeirra eru nánast engin skaðleg efni eins og níturoxíðsambönd og brennisteinn burtséð frá gróðurhúsaloftinu CO2.
Í Euro 5 staðlinum tengist stærsta framfaraskrefið dísilvélum, einkanlega dísilvélum í stórum flutningabílum. Í þeim á að draga úr öragnamengun um 80 prósent, eða úr 25 milligrömmum á kílómetra sem nú leyfist, niður í 5 milligrömm á kílómetra. Flestallir dísilfólksbílar sem í dag eru framleiddir í Evrópu eru innan þessara öragnamarka Euro 5 staðalsins.
Önnur mengandi efni frá dísilvélum eru níturoxíðsambönd. Evrópsku bifreiðaeigendafélögin innan FIA – samtakanna, þar á meðal FÍB, hafa lagt til mun strangari mörk en Evrópuráðið um það hversu mikið af þessum efnasamböndum mega vera í útblæstri dísilvéla. Samkvæmt tillögu Evrópuráðsins á að lækka magn þessara sambanda úr 250 í 200 milligrömm á kílómetra. Bíleigendafélögin innan FIA leggja hins vegar til að viðmiðunarmörkin verði 80 – 150 milligrömm þannig að dísilbílar verði jafngildir bensínbílum hvað þetta varðar.
En þótt félög bifreiðaeigenda vilji að þessu leyti ganga lengra en Euro 5 tillaga Evrópuráðsins eru félögin á hinn bóginn mjög sátt við ákvæði þar um að bílaframleiðendur skuli ábyrgjast að bílvélarnar endist það vel að þær haldi sér undir mengunarmörkum a.m.k. 160 þúsund kílómetra. Samkvæmt Euro 4 staðlinum er þessi krafa vægari því samkvæmt honum skulu þær duga að þessu leyti 100 þúsund kílómetra og nær ákvæðið einungis til bíla að 2,5 tonnum að þyngd. Í Euro 5 tillögunni er hins vegar gert ráð fyrir því að ákvæðið nái líka til þyngri bíla en 2,5 tonn.
The image “http://www.fib.is/myndir/Pustkerfi.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.
Nýtt pústkerfi úr léttmálmi.