Enn minni Mercedes Benz

Innan örfárra ára er væntanlegur nýr Mercedes Benz bíll sem verður minni en A gerðin. Þetta verður minnsti Mercedes bíllinn nokkru sinni og fær hann flokksbókstafinn X (sbr.  Benz A, B, C E og S).

Mercedes X verður ávöxtur vaxandi samstarfs við Renault í Frakklandi, byggður á nýjustu kynslóð Renault Clio, ekki ósvipað nýja smá-sendibílnum Mercedes Benz Citan sem byggður er á Renault Kangoo. Nýja bílnum er ætlað að keppa á markaði við VW Polo og aðra bíla í sama stærðarflokki.

Þýska bílatímaritið Auto Bild greinir frá þessu.

Nýi X-Benzinn verður að segja má svar við hinum nýju framhjóladrifnu BMW bílum sem væntanlegir eru. Þegar er búið að sýna frumgerð eins þeirra undir nafninu BMW Concept Active Tourer.  En með því að byggja nýja bílinn á grunni  og tækni Renault Clio sparar Mercedes stórfé í hönnunar- og þróunarkostnaði.

Reikna má með því að í byrjun verði tvær bensínvélagerðir í boði. Önnur þriggja strokka, um einn lítri að rúmtaki og fjögurra strokka vél 1,5 l að rúmtaki. Báðar verða í boði með túrbínu og beinni strokkinnsprautun eldsneytis. Verð nýja X bílsins er sagt verða undir 20 þúsund evrum.