Enn skal vegið að bílum heimilanna

Samkvæmt fréttum er það ætlan ríkisstjórnarinnar að ná í tæpa þrjá milljarða með því að leggja á nýja kolefnisskatta. Þessa skatta á að leggja á alla olíu og bensín sem þýðir ósköp einfaldlega að stór hluti þeirra lendir þungt á almenningi í formi nýrra skatta á bílaeldsneyti.

Kolefnisskatturinn sem er til skoðunar hjá ríkisstjórn á að leggjast á alla þá sem brenna jarðefnaeldsneyti og menga eins og það er gjarnan orðað. Hann er sagður eiga að vera tímabundinn í þrjú ár. Þá á þó ekki endilega að leggja hann niður, heldur breyta honum í samræmi við væntanlegar reglur ESB sem taka eiga gildi árið 2012.

Í fréttum Ríkisútvarpsins um helgina kom fram að þessar hugmyndir væru nánast fullmótaðar og við það miðað að kolefnisskatturinn skilaði ríkissjóði allt að þremur milljörðum króna á ári. Flugvélaeldsneytið og þar með flugfarseðlar munu þá hækka og einnig olía fyrir skipaflotann. Almenningur verður þó mest var við þessar nýju álögur vegna þeirrar hækkunar sem þær valda á bensín og dísilolíu. Í frétt Ríkisútvarpsins sagði að unnið væri út frá því að skatturinn lendi ekki of harkalega á almenningi og þannig að hvorki bensín né dísil hækki um meira en 5% vegna þessa nýja skatts. Eftir því sem fréttastofan komst næst leggjast þó tveir milljarðar króna af tæpum þremur á almenna bílaeigendur. Það er ekki lítið en fleira hangir þó á spýtunni:

Gangi þessar hugmyndir eftir getur hver bensínlítri hækkað frá um 7 til 9 krónur á lítra, sem eykur útgjöld meðalfjölskyldu um 14,000 til 18,000 krónur á ári. Bensín og dísilolía hafa þegar hækkað tvívegis frá bankahruninu haustið 2008. Bensínkostnaður meðal fólksbíls vegna hækkunar skatta mun verða um 60 þúsund krónum hærri yfir eitt ár samanborið við desember 2008.  Sami kostnaður vegna jeppa hækkar um meira en 75 þúsund krónur. Ofan á þessa hækkun bætist svo hækkandi heimsmarkaðsverð á eldsneyti og aukinn kostnaður vegna stórfellds hruns íslensku krónunnar á liðnu ári. Frá og með janúar 2010 þarf því venjulegt íslenskt heimili að afla yfir 100 þúsund króna í launatekjur til þess eins að eiga fyrir auknum sköttum á bensínlítrann samanborið við sömu útgjöld fyrir ári síðan.

Kolefnisskattur er nýja nafnið á fyrirhugaða aukaskatta á bensín og dísilolíu. En þrátt fyrir nafnið þá hefur þessi fyrirhugaða skattlagning nákvæmlega ekkert með umhverfismál að gera. Markmiðið er einungis eitt: Að afla fjár fyrir skuldugan ríkissjóð. Það kann vel að vera að spunameistarar stjórnvalda telji að kolefnisforskeytið bæti ímynd þessarar skattheimtu og sætti fólkið í landinu frekar við hana. Staðreyndin er bara sú að þessi skattur kemur verst niður á þeim tekjulægri og þeim sem vegna búsetu eða vinnu þurfa að sækja þjónustu um langan veg. Þá mættu stjórnvöld gjarnan minnast þess að bílaeldsneyti er stór liður í vísitölu neysluverðs þannig að hækkun bensínskatta hækkar vísitölubundin lán fólks og eykur verðbólgu.  

Stjórn FÍB ítrekar enn og aftur andstöðu sína við þessar skattahugmyndir og bendir jafnframt á að þetta er að gerast á sama tíma og framlög til vegamála eru skorin stórlega niður. Þessi skattlagning mun hefta hreyfanleika fjölda fólks og rýra möguleika þess til að sækja vinnu og þjónustu. Hún mun hafa mjög óæskileg áhrif á fjárhag og tekjumöguleika mikils fjölda Íslendinga og eru stjórnvöld því eindregið hvött til að endurskoða þessar fyrirætlanir.