EPA í USA sakar Fiat Chrysler um dísel-pústsvindl

Hin opinbera bandaríska umhverfisverndarstofnun EPA (Environment Protection Agency) sakar FCA (Fiat Chrysler Automobiles) um að hafa komið fyrir hugbúnaði í dísiljeppum af gerðunum Jeep Grand Cherokee og Ram 1500 sem gerir pústhreinsibúnað bílanna meira og minna óvirkan nema þegar bílarnir eru mengunarmældir. Sergio Marchionne forstjóri FCA hefur harðneitað þessu og segist öskureiður yfir getsökunum.

    Dísilvélarnar í bílunum umræddu eru þriggja lítra V6 vélar og fyrirfinnast bæði í bílum sem seldir hafa verið í Bandaríkjunum og í Evrópu. Í sölubæklingum og auglýsingum er mikið gert úr hreinleika og umhverfismildi þessara véla eins og gerðarheiti þeirra reyndar vísar til, en það er EcoDiesel. Í Bandaríkjunum eru bílarnir með þessum vélum 104 þúsund talsins. Þeir eru af árgerðum 2014-2016. Hugbúnaðurinn er sagður valda því að í notkun geti bílarnir mengað vel umfram lögleyfð viðmiðunarmörk.

    Það var einmitt EPA sem upphaflega afhjúpaði pústsvindlið hjá Volkswagen haustið 2015 sem síðan vatt svo mjög upp á sig að á endanum voru 11 milljón bíla um allan heim innkallaðir til viðgerðar. Tilkynning EPA um málið sl. fimmtudag er mjög keimlík fyrstu tilkynningunni um Volkswagenmálið frá 2015. Í henni segir m.a. að EPA hafi enga vitneskju fengið frá FCA um að þessi hugbúnaður væri til staðara í bílunum og því væri ljóst að þeir hefðu verið seldir ólöglega („illegally sold“). Sergio Marchionne forstjóri FCA harðneitar þessu og segir að fyrirtækið hafi aldrei látið gera neinskonar búnað sem hefði þann tilgang að fara á svig við útblástursmengunarreglur.

    Í fréttum bandarískra miðla af þessu máli má lesa nokkra undrun yfir hörðum viðbrögðum Sergio Marchionne. Þau eru túlkuð í því ljósi að forstjórinn sé að freista þess að þyrla upp ryki til að tefja málið þar til ríkisstjórn og ráðuneyti Donalds Trump taka að fullu við stjórnartaumum. Marchionne hafi greinilega lagt sig fram um að geðjast Trump á ýmsan hátt t.d. með yfirlýsingum um aukna bílaframleiðslu í Bandaríkjunum en ekki í Mexíkó eða Kanada og um að sameina FCA og General Motors í eitt hreinræktað bandarískt risa-bílafyrirtæki.

    En ekki bara þetta heldur líka það að Donald Trump hefur tilnefnt Scott nokkurn Pruitt sem nýjan forstjóra EPA. Pruitt þessi er þekktur í Bandaríkjunum fyrir að vera mikill andstæðingur hverskonar ,,eftirlitsiðnaðar“ á vegum hins opinbera, þar á meðal mengunar- og umhverfiseftirlits. Marchionne er sagður hugsanlega binda vonir við það að slíkur andstæðingur eigin stofnunar muni fara mildum höndum um FCA í þessu nýja pústmáli, náði það einhverju flugi í námunda við það sem pústmál Volkswagen gerði.