Er bíllinn í lagi?

Samkvæmt tölulegum gögnum sem ástandsskoðunarstöðvar FDM, systurfélags FÍB í Danmörku, hafa tekið saman aka margir um á biluðum bílum í vetrarfærinu án þess að átta sig á að eitthvað sé að. Gögnin eru unnin upp úr um það bil fimm þúsund heimsóknum félagsmanna með bíla sína á ástandsskoðunarstöðvar félagsins.

 Oftast eru þetta bilanir sem auðvelt er að lagfæra, en sumar þeirra gætu engu að síður haft slæmar afleiðingar í för með sér þar sem þær varða öryggi bílsins í vetrarumferðinni og –færðinni.  Þetta eru bilanir í hemlakerfum bíla, ljósabúnaði og rafkerfi. Langoftast fundust bilanir tengdar gangi vélarinnar, ljósabúnaði og hemlum.

 Um þessar mundir er talsvert vetrarríki í Danmörku og sömu sögu er að segja frá Íslandi. Vart þarf því að búast við því að ástand bíla á Íslandi sé neitt mikið öðruvísi en í Danmörku Því ættu bílaeigendur og umráðamenn bíla að kanna ástand farskjóta sinna og tryggja þannig sem best öryggi sitt og samborgara sinna í vetrarumferðinni. Ævar Friðriksson tæknistjóri og tækniráðgjafi FÍB segir miklu skipta að ljósabúnaðurinn sé í lagi í svartasta skammdeginu. Vanstillt aðalljós geta blindað aðra ökumenn og eineygðir og ljóslausir bílar senda öðrum vegfarendum röng skilaboð og þannig getur skapast atburðarás sem gæti endað með skelfingu.

 Af þeim fimm þúsund bílum sem skoðunarstöðvar FDM athuguðu reyndist um þriðjungur eða 29 prósent vera með vanstillt aðalljós eða jafnvel eineygðir. Fimmti hver bíll (21%) var með ónýtan hemlavökva sem nauðsynlega þurfti að skipta út og 18 prósent höfðu slitna eða ryðgaða hemladiska og/eða slitna hemlaklossa. Allir framantaldra hemlaágalla geta auðveldlega valdið alvarlegum vandræðum í neyðartilvikum. Loks fundust bilanir í vélum eða skynjurum í fimmta hverjum bíl. Í langflestum tilvikum reyndist mengun frá þessum síðasttöldu of mikil auk þess sem bilanirnar ullu gangtruflunum.

 Ævar segir við fréttavef FÍB að það sé ekki skynsamlegt að spara í viðhaldi heiimilisbílsins. Eðlilegt viðhald og eftirlit með ástandi bílsins bæði tryggi öryggi fólks og spari stórar fjárhæðir til lengri tíma. Allar framannefndar bilanir leiða auðveldlega til frekari skemmda á bílum og kostnaðarsamra viðgerða síðarmeir. Þá er enn ótalin yfirvofandi hætta á að verða einfaldlega stopp úti í vetrarumferðinni og kuldanum vegna þess að bílnum er illa haldið við. Vilji fólk eitthvað til vinna að vera laus undan slíku sé skynsamlegt að láta ástandsskoða og yfirfara bílinn með hliðsjón af aldri hans og almennu ástandi. En eigendur og umráðamenn bíla geta sjálfir athugað það allra mikilvægasta sem er:

• Hjólbarðarnir

Ef þeir eru of slitnir verður veggripið lélegt og bíllinn því óstöðugur og varasamur í akstri.

• Hemlarnir

Ef hemlarnir eru í ólagi getur skapast lífshætta.

• Ljósin

Eru allar perur heilar og ljós á öllum lugtum? Ef aðalljósin eru vanstill geta þau blindað þá sem á móti koma og þannig skapað hættuástand í umferðinni.