Er einhver munur á bílatryggingum milli Norðurlandanna annar en iðgjöldin?

Eins og fram hefur komið gerði FÍB samanburðarkönnun á iðgjöldum bílatrygginga hér á landi og á hinum Norðurlöndunum. Til að fá sem nákvæmastan samanburð var miðað við sams konar bíla og fjölskyldustærðir í öllum löndunum. Leitað var eftir iðgjöldum ábyrgðartrygginga og kaskótrygginga og var haft samband við stærstu tryggingafélögin í hverju landi. Könnuð voru iðgjöld í fjórum stórborgum og svo Reykjavík.

Bílatryggingar eru að flestu leyti sambærilegar milli Norðurlandanna. Ábyrgðatryggingin bætir tjón sem ökutækið veldur öðrum; á munum, öðrum ökutækjum og fólki. Rúðutrygging og lögfræðiaðstoð er alla jafna hluti af ábyrgðartryggingunni. Kaskótryggingin bætir tjón á ökutæki sem er í órétti og ýmislegt annað tjón sem verður á því. Ábyrgðartrygging er skylda, en kaskó valkvætt. Á hinum Norðurlöndunum er alla jafna meiri vernd innifalin í tryggingunni en hér á landi, t.d. flutningur á verkstæði hvaðan sem er.

Hinn víðfrægi iðgjaldafrumskógur vex af jafn miklum krafti hjá frændum vorum og hér á landi. Tryggingafélögin horfa til margra þátta þegar þau reikna út iðgjöldin, aðallega til að ákveða áhættuna sem felst í því að tryggja viðkomandi. Fyrir vikið er ekkert til sem heitir eitt iðgjald trygginga.

Athygli vekur í samanburðinum milli landanna að þrátt fyrir mikinn mun á iðgjöldum, þá er mjög lítill munur á eigináhættu kaskótryggingar. Það gefur til kynna að í raun ætti svipaður munur að vera á iðgjöldunum sjálfum – en svo er ekki eins og fram hefur komið. Iðgjöld bílatrygginga eru 50-100% hærri hér á landi en á hinum Norðurlöndunum.