Er hátt olíuverð Kínverjum að kenna?

http://www.fib.is/myndir/Chevroavalanche.jpgThe image “http://www.fib.is/myndir/Corsa_litil.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.
Bandaríski meðalbíllinn kemst 7 km á lítranum en sá evrópski 13 km.


Þegar almenningur kvartar undan gríðarlega háu olíuverði grípa talsmenn olíufélaga oftar en ekki til þeirra raka að um sé að kenna ásókn Kínverja og jafnvel Indverja í olíu og sú ásókn muni ekki minnka, heldur þvert á móti aukast stórum skrefum. Eftir því sem iðnvæðing aukist í Kína taki Kínverjar til sín sífellt stærri hluta af olíuforða veraldarinnar. En er þetta alveg svona?

Tölur og staðreyndir tala talsvert öðru máli: Þrátt fyrir að Kína iðnvæðist hratt og bílaeign þar stóraukist brenna Kínverjar einungis um 8% af olíunotkun jarðarbúa. Olíunotkun Bandaríkjamanna er hinsvegar hvorki meira né minna en 25% af olíunotkun heimsins og olíunotkun Evrópumanna er 18%. Meðal olíunotkun á hvert mannsbarn í Kína er minni en tvær tunnur á ári. Til samanburðar er olíunotkun hvers Evrópubúa um 12 tunnur á ári og hvers Bandaríkjamanns 26 tunnur, hvorki meira né minna. Í fréttaskýringu í Financial Times í vikunni er fullyrt að gríðarhátt olíuverð sé ekki vaxandi olíunotkun Kínverja að kenna heldur sé ástæðan fyrst og fremst slóðaskapur í viðhaldi og uppbyggingu í olíuiðnaðinum allt frá tíunda áratugi síðustu aldar og heimskuleg orkustefna hins vestræna heims.

Heimsmarkaðsverð á olíu er nú fjórfalt hærra en það var árið 2001. Ætla mætti að hið háa olíuverð myndi þvinga neytendur til að breyta orkuneysluvenjum sínum í átt til orkusparnaðar og að stjórnmálamenn tækju einhverskonar frumkvæði að breytingum í þá átt. Hvorugt hefur gerst. Í Bandaríkjunum fer eftirspurn almennings eftir olíu stöðugt vaxandi og annar hver nýskráður bíll þar er jeppi eða pallbíll og þeir stærstu þessara bíla komast einungis 3-4 kílómetra á hverjum lítra af bensíni.

Bílafloti Bandaríkjamanna er þannig saman settur að meðaldrægi bíla í eigu almennings er einungis um 7 kílómetrar á hverjum lítra af eldsneyti. Ástandið í Evrópu er mun skárra því að meðaltali komast bílar þar um 13 kílómetra á lítranum. Ef takast mætti að sannfæra Bandaríkjamenn um að kaupa sér samskonar bíla og Evrópumenn myndi olíunotkun í heiminum minnka um fjórar milljónir tunna á dag eða sem svarar allri olíuframleiðslu Írans – þriðja stærsta olíuútflutningsríkis heims.

En hversvegna ætti almenningur – við sjálf – að sætta okkur við bíla sem einungis komast 13 kílómetra á lítranum? Það fást nefnilega ágætir, aflmiklir og þægilegir bílar nú þegar sem  komast auðveldlega 20 kílómetra á lítranum.

Ef  allir bílar sem í umferð eru í Bandaríkjunum, Kanada, Evrópu, Japan og Ástralíu færu að meðaltali  20 kílómetra á lítranum myndi olíunotkun heimsins minnka um 10 milljón tunnur á dag sem er það daglega magn sem stærsta olíuríki heimsins, Sádí-Arabía framleiðir. 10 milljón tunnur á dag er meira en bæði Kína og Indland nota samanlagt á degi hverjum.

En eyðslufrekir bílar eru ekki einasta della hins vestræna heims: Fólk kyndir hús sín mikið og vill hafa hitabeltisvarma í þeim að vetrinum en kælir þau niður í sumarhitum. Bandaríkjamenn eru í þessum efnum miklu frekari til fjörsins en aðrir íbúar iðnríkjanna. Financial Times telur að ef Bandaríkjamenn hituðu og kældu hús sín með svipuðum hætti og Evrópumenn og báðir heimshlutarnir tækju að nota sparneytna bíla sem komast 20 km á lítranum myndu sparast 15 milljónir tunna af olíu á dag. Það þýddi olíusparnað á heimsvísu um nokkurnveginn 20%.

En þrátt fyrir að olíuverð sé hátt um þessar mundir þá er greinilegt að vestrænir neytendur telja sig ekki nauðbeygða til að breyta orkuneyslu sinni á róttækan hátt. Vera kann að skýringin á því sé sú að olíuverð, sem nú er í kring um 60 dollara tunnan, sé þrátt fyrir allt ekki svo hátt að það skipti vestrænan almenning verulegu máli. Svona til samanburðar kostar sama magn af kóka kóla eða appelsíni  tvöfalt meir en tunnan af hágæða hráolíu af Brent-svæðinu í Norðursjó.