Er lífeldsneytið ekki lausnin?

http://www.fib.is/myndir/Repja.jpg
 Repjuakur í Þýskalandi.

Hópur vísindamanna undir forystu Nóbelsverðlaunahafans Paul Crutzen hefur komist að þeirri niðurstöðu að með því að rækta plöntur til þess að vinna úr þeim „líf“eldsneyti fyrir bíla og vélar verði losun gróðurhúsalofttegunda allt að 70 prósent meiri en með því að halda sig áfram við jarðolíueldsneyti. Der Spiegel greinir frá þessu.

Lífeldsneytið hefur lengi verið talið geta orðið mikilvægur áfangi í því að stemma stigu við losun gróðurhúsalofttegunda og gera orkumarkaðinn minna háðan olíunni. Nú eru blikur á lofti með það eftir að alþjóðlegur rannsóknahópur vísindamanna undir forystu þýska efnafræðingsins Paul Crutzen hefur komist að þeirri niðurstöðu að lífeldsneytið geti reynst mun skaðlegra fyrir veröldina en jarðefnaaeldsneytið nokkurntíman. Ræktun plantna og eldsneytisframleiðsla úr t.d. repjufræjum, maís og sykurreyr muni stórauka útblástur skaðlegra gróðurhúsalofttegunda

Rannsóknahópurinn kemst að þeirri niðurstöðu að öll framkvæmdin frá ræktun til bruna eldsneytisins leiði af sér tvöfalt meiri losun níturoxíðs (N2O) en áður hefur verið talið. Þetta aukna níturgas leysist m.a. úr læðingi úr tilbúnum áburði sem notaður er á akrana þar sem „eldsneytisplönturnar“ eru ræktaðar. Gert er ráð fyrir að 3-5% þess níturs sem í áburðinum er leysist þannig út í andrúmsloftið í stað tveggja prósenta eins og hingað til hefur verið talið.

Crutzen er virtur vísindamaður og þekktur fyrir loftslagsrannsóknir sínar. Hann fékk Nóbelsverðlaunin árið 1995 fyrir rannsóknir á ózonlaginu. Rannsóknin sem hér um ræðir birtist nýlega í vísindaritinu Atmospheric Chemistry and Physics.