Erlendir ferðamenn óku bílaleigubílum 540 milljónir km á Íslandi árið 2016

Í skýrslu um Akstur og öryggi erlendra ferðamanna 2016 og birt er á heimasíðu Vegagerðarinnar kemur fram áhugaverð notkun erlendra ferðamanna á bílaleigubílum hér á landi á síðasta ári.  Greinagerðin er unnin af fyrirtækinu Rannsóknir og ráðgjöf ferðaþjónustunnar ehf með stuðningi rannsóknarsjóðs Vegagerðarinnar. Spurningar voru lagðar fyrir ferðamenn þegar þeir yfirgáfu landið í Leifsstöð og var hlutfall karla og kvenna í könnunni nær jafnt.

Sé litið til þróunarinnar síðustu sjö árin má áætla út frá Dear Visitors könnun RRF að árið 2016 hafi um 960 þúsund ferðamenn nýtt sér bílaleigubíla á Íslandi (56% gestanna), samanborið við um 480 þúsund árið 2014 (48%) og 166 þúsund árið 2009 (33%). Samkvæmt þessu nýttu 5,8 sinnum fleiri ferðamenn sér bílaleigubíla á Íslandi árið 2016 en árið 2009 og tvöfalt fleiri árið 2016 en árið 2014.

Yfir sumarmánuðina þrjá árið 2016 nýttu að jafnaði 64% sér bílaleigubíla, 60% ferðamanna á jaðarmánuðunum (mars, apríl, maí, september og október) og 40% ferðamanna yfir dimmustu vetrarmánuðina (janúar, febrúar, nóvember og desember).

Áætlað er að 12 sinnum fleiri erlendir ferðmenn hafi nýtt sér bílaleigubíl yfir helstu vetramánuðina árið 2016 (janúar, febrúar, nóvember, desember) en árið 2009 eða um 166 þúsund manns á móti 13-14 þúsund. Kannanir RRF benda einnig til þess að um 8 sinnum fleiri ferðamenn á jaðartímunum árið 2016 (mars, apríl, maí, september og október) hafi nýtt sér bílaleigubíl en ferðamenn sömu mánuði 2009, eða nær 400 þúsund á móti um 50 þúsund. Hins vegar var fjölgunin aðeins 3,8 föld yfir helstu sumarmánuðina (júní, júlí og ágúst), um 400 þúsund sumarið 2016 á móti 103 þúsund árið 2009.

Um 59% þeirra sem leigðu bílaleigubíl árið 2016 gerðu það utan sumarmánaðanna þriggja. Það hlutfall var 44% árið 2014 og 38% árið 2009.

Þau 56% erlendra gesta sem nýttu sér bílaleigubíla árið 2016 óku þeim að meðaltali um 1.700 km, eða um 230 km á dag þá að jafnaði 7,5 daga sem dvalið var á Íslandi. Meðalakstur var tæplega 1100 km yfir helstu vetrarmánuðina, um 1600 km á jaðar-mánuðunum og 2150 km yfir sumarmánuðina þrjá. Heildarakstur á hvern leigusamning var lengstur í júlí og ágúst, um 2.200 km, en stystur í desember, um 900 km.

Af íbúum einstakra markaðssvæða nýttu ferðamenn frá Benelux löndunum sér helst bílaleigubíl í ferð sinni á Íslandi árið 2016 (78%) en síðan gestir frá Suður-Evrópu (73%) og gestir utan helstu markaðssvæða (69%). Þá komu ferðamenn frá Mið-Evrópu (59%), NorðurAmeríku (57%), Asíu (54%) og Norðurlöndunum (52%) en ferðamenn frá Bretlandseyjum ráku lestina (37%).

Árið 2016 var áætlaður meðalakstur á bílaleigubílum á hverja útleigu lengstur meðal gesta frá Benelux löndunum (um 2.400 km) og síðan meðal gesta frá Suður-Evrópu (2.200 km), Mið-Evrópu (2.100 km), Asíu (1.900 km) og meðal ferðamanna utan helstu markaðssvæða (1.800 km). Hann var mun styttri meðal gesta frá Norður-Ameríku (1.400 km) og Bretlandi (1.200 km) en þó stystur meðal Norðurlandabúa (1.100 km). Akstur og öryggi erlendra ferðamanna 2016 2

Áætlað er að erlendir ferðamenn hafi ekið bíleigubílum alls um 540 milljónir km á Íslandi árið 2016 (miðað við þrjá í bíl að jafnaði). Það samsvarar meðalakstri um 45 þúsund heimilisbíla á Íslandi miðað við 12 þúsund km akstur á ári. Árið 2016 voru nálægt 220 þúsund einkabílar á Íslandi eða um 0,67 bíll á hvern íbúa. Því má má áætla akstur erlendra ferðamanna á bílaleigubílum árið 2016 um 20% af öllum akstri Íslendinga á einkabílum.

Ef miðað er við 8 lítra meðaleyðslu bílanna á hverja 100 km og eldsneytisverð að jafnaði 200 kr á lítra má lauslega slá á að eldsneytisútgjöld erlendra ferðamana vegna aksturs á bílaleigubílum á Íslandi árið 2016 hafi numið 8,6 milljörðum króna.

Til samanburðar má nefna að áætlað er að árið 2014 hafi erlendir ferðamenn ekið bílaleigubílum á Íslandi um 270 milljónir km og um 90 milljónir km árið 2009. Samkvæmt því var álag bílaleigubíla á vegakerfið, þar sem erlendir ferðamenn voru við stýrið, nær sex sinnum meira árið 2016 en árið 2009 og tvöfalt meira árið 2016 en 2014.

Áætlað er að heildarakstur erlendra ferðamanna á bílaleigubílum árið 2016 hefi verið lengstur í júlí og ágúst, rúmlega 100 milljónir km hvorn mánuð, eða um 3,5 milljónir km á dag. Sá daglegi akstur samsvarar um 2.500 hringjum umhverfis landið eftir þjóðvegi 1, eða fimm ferðum fram og til baka til tunglsins. Hins vegar er heildaraksturinn áætlaður minnstur í janúar og febrúar, 9-10 milljónir km hvorn mánuð.

Áætlað er að 53% af öllum akstri erlendra ferðamanna á bílaleigubílum hafi átt sér stað yfir sumarmánuðina þrjá, 37% á jaðarmánuðunum en 10% yfir fjóra dimmustu vetrarmánuðina.

Áætlað er að gestir frá Norður-Ameríku hafi ekið mest á bílaleigubílunum árið 2016 eða um 128 milljónir km, 24% af heildinni. Síðan komu ferðamenn frá Suður-Evrópu, utan helstu markaðssvæða og Mið-Evrópubúar með 79-87 milljónir km eða 15-16% hlutfall hver hópur. Þá komu ferðamenn frá Asíu og Bretlandi með 45-49 milljónir km og 8-9% hlutfall hvor hópur en ferðamenn frá Norðurlöndunum og BeNeLux löndunum óku styst eða um 33 miljónir km alls og um 2% hvor hópur.

Áætlað er að bílaeigubílar í notkun erlendra ferðamanna á sama tíma árið 2016 hafi verið flestir í ágúst, um 16 þúsund, 14-15 þúsund í júlí, um 12 þúsund í júní og litlu færri í september. Hins vegar hafi fæstir bílar verið í útleigu samtímis í janúar og febrúar, 1,4-1,5 þúsund en síðan í mars og apríl, 2,6-2,8 þúsund og þá í nóvember og desember, 3,1-3,2 þúsund. Að jafnaði voru mun fleiri bílar í útleigu erlendra gesta í október 2016, um 7,2 þúsund, en í maí, 5,5 þúsund.

Sem dæmi má nefna er áætlað að um 4.800 ferðmenn hafi að jafnaði komið á um 1.600 bílaleigubílum að Geysi hvern dag í júlí og ágúst 2016 en að jafnaði 1.200 manns á dag í janúar á um 400 bílum (þegar minnst var umleikis). Sambærilegar tölur fyrir Þingvöll eru áætlaðar um 1.300 bílar á dag í júlí og ágúst en um 320 bílar hvern dag janúarmánuðar og að Jökulslárlóni um 1.100 bílar í júlí og ágúst en 90 bílar á dag í janúar.