Erlendir ferðamenn óku bílaleigubílum um 635 milljónir km á Íslandi 2017

Í rannsóknum sem fyrirtækið Rannsóknir og ráðgjöf ferðaþjónustunnar vann kemur í ljós að 61% erlendra gesta sem nýttu sér bílaleigubíla árið 2017 óku að meðaltali um 1.560 km þann tíma sem þeir leigðu bílana, eða um 230 km á dag að jafnaði þá 6,8 daga sem leigan stóð. Heildarakstur á hvern leigusamning var að jafnaði lengstur í júlí, um 2.100 km, en stystur í janúar, um 940 km.

Ferðamenn frá Benelux-löndunum nýta sér helst bílaleigubíla

Af íbúum einstakra markaðssvæða nýttu ferðamenn frá Benelux löndunum sér helst bílaleigubíla í ferð sinni á Íslandi árið 2017 (82%) en síðan gestir frá Suður-Evrópu (80%). Þá komu ferðamenn frá Mið-Evrópu (66%), Norður-Ameríku (65%), Asíu (63%), ferðamenn utan helstu markaðssvæða (56%) og frá Norðurlöndunum (56%). Gestir frá Bretlandseyjum ráku lestina (39%).

Í skýrslunni kemur fram að áætlað er að meðalakstur á bílaleigubílum á hverja útleigu árið 2017 eftir búsetu hafi verið lengstur meðal gesta frá Asíu (2.090 km) og síðan meðal gesta frá Suður-Evrópu (1.950 km), Mið-Evrópu (1.940 km) og Benelux löndunum (1.900 km). Hann var mun styttri meðal gesta utan helstu markaðssvæða (1.470 km) og frá Norður-Ameríku (1.350 km). Stystur var meðalakstur bílaleigubíla meðal Norðurlandabúa (1.110 km) og Breta (1.070 km).

Áætlað er að erlendir ferðamenn hafi ekið bíleigubílum alls um 635 milljónir km á Íslandi árið 2017 (18% meira en 2016). Það samsvarar meðalakstri um 53 þúsund heimilisbíla á Íslandi miðað við 12 þúsund km akstur á ári. Í lok árs 2017 voru um 233 þúsund skráðir fólksbílar á landinu í eigu Íslendinga eða um 0,68 bíll á hvern íbúa. Því má áætla akstur erlendra ferðamanna á bílaleigubílum árið 2017 um 23% af öllum einkaakstri Íslendinga það ár.

Eldsneytisútgjöld erlendra ferðamanna námu 10,1 milljörðum króna

Ef miðað er við 8 lítra meðaleyðslu bílanna á hverja 100 km og eldsneytisverð að jafnaði 200 kr á lítra má lauslega slá á að eldsneytisútgjöld erlendra ferðamana vegna aksturs á bílaleigubílum á Íslandi árið 2017 hafi numið 10,1 milljörðum króna.

Til samanburðar má nefna að áætlað er að árið 2016 hafi erlendir ferðamenn ekið bílaleigubílum á Íslandi um 540 milljónir km, 270 milljónir km árið 2014 og um 90 milljónir km árið 2009. Því er áætlað að álag bílaleigubíla á vegakerfið, þar sem erlendir ferðamenn voru við stýrið, hafi verið um sjö sinnum meira árið 2017 en árið 2009 og 2,4 falt meira en árið 2014.