Ertu á leið til Evrópu í sumarfrí?

Svo gæti virst sem erlendar bílaleigur hafi þá stefnu að þegar bíl er skilað, fari starfsmenn leigunnar í mikla lúsarleit að rispum, beyglum og skemmdum sem leigutaki er síðan látinn greiða fyrir dýru verði, jafnvel að ósekju. Margir Íslendingar hafa orðið fyrir þessu undanfarin ár og þurft að standa í harðvítugum deilum um skemmdir sem þeir kannast alls ekki við. Einnig hafa margir orðið fyrir því að tekið hefur verið stórfé út af greiðslukortum þeirra vegna meintra skemmda. Það á sérstaklega við bíla sem skilað var eftir lokunartíma afgreiðslu og lyklar settir í sérstakan póstkassa

Þegar leigutakar sem pantað hafa bílaleigubíla koma í afgreiðslu bílaleiga á flugvöllum, bjóða starfsmennirnir leigutaka nánast undantekningarlaust að kaupa sérstaka rándýra viðbótartryggingu sem leysir hann undan sjálfsáhættu ef bíllinn skemmist. Þessar viðbótartryggingar eru í mörgum tilfellum óþarfar því að tryggingar sem innifaldar eru í gull- og platínugreiðslukortum ná yfir tjón sem verða á bílnum á leigutímanum og leigutaki viðurkennir. Eini gallinn við kortatryggingarnar  er að leigutaki þarf sjálfur að leggja út fyrir tjóninu og fá það síðan endurgreitt þegar heim er komið.

En til að komast sem mest hjá óþægindum vegna meintra tjóna sem borin eru upp á leigutaka er nauðsynlegt að fara vel yfir bílinn, helst í fylgd með starfsmanni bílaleigunnar áður en lagt er af stað á honum, finna allar rispur og aðrar misfellur á bílnuim og sjá til þess að þær séu skráðar í leigusamninginn. Allir eiga nú snjallsíma eða myndavél og er sjálfsagt að mynda bílinn allan hringinn og allar misfellur á honum og láta dagsetningu og tíma standa á myndunum. Þar með er orðið til sönnunargagn um ástand bílsins áður en lagt var af stað á honum.

Loks er hér tékklisti sem gott er að hafa meðferðis þegar tekinn er bílaleigubíll til að minna sig á að spyrja réttu spurninganna:

1. Áður en þú leggur af stað, kannaðu ferða- og kortatryggingar þínar og hvort þær nái til tjóns sem kann að verða á bílaleigubílnum.

2. Spurðu afgreiðslumann bílaleigunnar hvort bíllinn hafi verið þjónustaður og sé tilbúinn til útleigu og í fullkomnu lagi.

3. Spurðu afgreiðslumanninn hvað þú eigir að gera ef bíllinn bilar.

4. Spurðu afgreiðslumanninn hvað gerist ef lykill að bílnum týnist.

5. Biddu um símanúmer til að hringja í ef bíllinn bilar eða verður ekki ferðafær.

6. Kannaðu skemmdir á bílnum. Myndaðu hann allan hringinn.

7. Kannaðu númeraplötur bílsins. Er sama áletrun á þeim að aftan og framan?

8. Er nóg loft í hjólbörðum, þeir óskemmdir og með nægilega mynsturdýpt?

9. Er bíllinn hreinn að innan og utan?

10. Kannaðu kílómetrastöðuna á mælinum og í leigusamningnum. Eru tölurnar eins?

11. Eru ljósin í lagi?

12. Virka rúðuþurrkurnar og rúðusprauturnar?

13. Er notendahandbók bílsins í hanskahólfinu?

14. Hver er olíustaðan á vélarkvarðanum?

15. Er varadekk, tjakkur og felgulykill í bílnum?

16. Er nógur vökvi á rúðusprautunni og hemlakerfinu?

17. Þegar þú skilar bílnum, taktu kílómetrastöðuna.

18. Hver er staðan á eldsneytismælinum?

19. Athugaðu hvort skemmdir hafi orðið á bílnum á leigutímanum. Myndaðu hann aftur ef þú telur þess þörf.