Eru bensínbílarnir „grænni“ en rafbílarnir?

Þýskir vísindamenn hjá óháðri rannsóknastofnun sem heitir Öko Institut, sem rannsakað hafa umhverfisleg áhrif þess að rafbílum fjölgi, telja að miðað við þá fjölgun rafbíla sem spáð er að eigi sér stað fram til ársins 2020 muni rafbílarnir nánast ekkert draga úr útblæstri koltvísýrings - CO2 nema því aðeins að öll sú orka sem þeir krefjast verði framleidd með viðvarandi orkugjöfum – vindi og sól.

Rannsóknin umrædda stóð í tvö ár. Hún var gerð fyrir þýska umhverfisráðuneytið og niðurstöðurnar koma fram í svonefndri Optum skýrslu. Þær eru algerlega þvert á það sem haft hefur verið fyrir satt til þessa. Hin „pólitískt rétta“ skýring hingað til hefur nefnilega verið sú að því fleiri sem rafbílarnir verða, þeim mun meir dregur úr CO2 útblæstri. Skýrsluhöfundar segja það rangt vegna þess að auka verði afköst kola- olíu- og gasknúinna raforkuvera til að mæta orkuþörf rafbílanna.

Þau vind- og sólarorkuver sem þegar fyrirfinnast í landinu og áætlaðar viðbætur við þau muni aldrei duga til að anna orkuþörf milljón rafbíla sem áætlað er að verði í notkun í Þýskalandi 2012. Miklu meiri umhverfislegur ávinningur fengist með því að sleppa því að hugsa frekar um fjölgun rafbíla heldur vinda sér í það að halda áfram endurbótum og þróun sparneytinna bensínvéla. Þar seig menn ennþá inni mikið svigrúm til að bæta nýtingu eldsneytisins og þar með að draga úr eyðslu og CO2 útblæstri.

Florian Decker sem stjórnaði rannsókninni segir við danskt verkfræðitímarit að í ljós hafi komið að vindmyllur og aðrar tæknilausnir sem þegar eru til staðar til að nýta varanlega orkugjafa eins og vinda og sól dugi hvergi nærri til að fullnægja orkuþörf milljón rafmagnsbíla og með ítrustu mögulegu viðbótum verði niðurstaðan í besta falli sú að rafbílavæðingin dragi úr CO2 losun um 0,6 prósent árið 2020 og um um 6 prósent árið 2030.

Miklu meiri árangri sé hægt að ná með því að sleppa bara rafbílavæðingunni að mestu en halda áfram þess í stað að þróa minni bensínvélar úr léttmálmum og með túrbínum og fjölga bílum með slíkar vélar. Þannig megi draga úr CO2 losun frá bílaumferð um minnst 25 prósent fram til ársins 2030.

Í Danmörku er því spáð að árið 2020 verði rafbílar í umferð orðnir 119 þúsund talsins. Danskir sérfræðingar eru  margir sammála niðurstöðum þýsku Optum skýrslunnar í meginatriðum. Rannsóknir í Danmörku bendi til hins sama. Sé mönnum á annað borð alvara með það að draga úr CO2 losuninni séu rafbílarnir langt í frá eina lausnin og alls ekki sú besta. Árangursríkasta leiðin til að draga úr CO2 losun fram til 2020 sem nú sé í sjónmáli sé fyrst og fremst fólgin í því að endurbæta brunahreyflana enn frekar.

Deildarstjóri hjá dönsku orkumálastjórninni er ekki sammála þessu að öllu leyti. Hún segir að ekki sé hægt að heimfæra niðurstöður þýsku Optum rannsóknarinnar upp á Danmörku og engin ástæða sé fyrir Dani að leggja áætlanir um fjölgun rafbíla á hilluna á grundvelli hennar. Ástæðan sé sú að hlutfall vind- og sólarorku í orkukerfi Dana verði orðið 70 prósent árið 2020 en einungis 20 prósent hjá Þjóðverjum. Þetta 70 prósenta hlutfall viðvarandi orku þýði það að CO2 útblástur á hverja kílóWattstund verði þá orðin einungis þriðjungur þess sem hann er í dag. -Það er því alveg ljóst að fjölgun rafbíla hjá okkur felur í sér mikinn umhverfislegan ávinning, segir deildarstjórinn við danska verkfræðitímaritið.