Eru lög um bílaeldsneyti sem taka gildi um áramót óþörf?

Um næstu áramót ganga í gildi gildi lög um að hlutfall endurnýjanlegs eldsneytis í samgöngum á landi verði hækkað í áföngum upp í 10 prósent til ársins 2020. Lög þessi eru byggð á ESB tilskipun sem kveður á um að árið 2014 skuli hlutfall endurnýjanlegs eldsneytis í heildarsölu á bifreiðaeldsneyti vera a.m.k. 3,5% og fari í 5% 2015.

ESB tilskipunin ummrædda er hluti áætlunar ESB um að hlutfall endurnýjanlegrar orku í öllu jarðefnaeldsneyti hvort heldur því er brennt til samgangna á láði, í lofti eða á legi eða til annarra nota, eins og til húsahitunar/-kælingar eða í iðnaði, skuli vera orðið 20% árið 2020. Tilskipunin miðast þannig fyrst og fremst við þær aðstæður sem ríkja í Evrópu. Á Íslandi eru þær hins vegar allt aðrar og algerlega ósambærilegar við hinar evrópsku.

Hér á landi eru aðstæður nefnilega þær að það er þegar löngu búið að ná þessu heildarmarkmiði ESB um 20 prósenta hlutfall endurnýjanlegrar orku í heildar-orkunotkunarpakkanum. Hlutfall endurnýjanlegrar orku á Íslandi er nefnilega – ekki 20% - heldur 75 prósent. Það er því vandséð að þessi nýju lög sem samþykkt voru í árlegu þinglokaofboði á alþingi í mars sl. eigi yfirleitt við hér. En það hangir ýmislegt fleira á spýtunni ef þessi lög fá að taka gildi um næstu áramót:

Á fundi um þetta mál sem Bílgreinasambandið og FÍB stóðu að í síðustu viku um þessi lög greindi Glúmur Jón Björnsson efnafræðingur og framkvæmdastjóri efnarannsóknastofunnar Fjölvers frá því að helstu afleiðingar laganna yrðu m.a. þær að innkaupsverð á bifreiðaeldsneyti mun hækka, kostnaður vex við flutning, geymslu og íblöndun, eldsneytisnýting í bílvélum mun versna, hætta á gæðafrávikum í eldsneyti vex, ríkissjóður verður af um 800 milljóna króna tekjum árið 2014 og umhverfislegur ávinningur þessa umstangs alls er afar óviss.

Taki lögin gildi er vitað mál að flytja verður inn hin endurnýjanlegu íblöndunarefni í eldsneytið og blanda í það hér á landi. Í bensínið verður það alkóhól eins og tréspíri (metanól) eða etanól sem sett verður út í bensínið og lífræn olía (matarolía) af einhverju tagi í dísilolíuna. Alkunna er að orkugildi hverrar rúmmálseiningar ofannefndra íblöndunarefna í bensín er umtalsvert lægra en hreins bensíns. Það þýðir að íblöndunarefnin þynna út eldsneytið. Það kallar á meiri eldsneytiseyðslu bílanna, þeir fara að eyða meiru og í ofanálag verður blandaða eldsneytið dýrara fyrir neytendur. Lítraverðið hækkar.

Hin aukna eyðsla og hærra lítraverð er þó ekki eina vandamálið því að spíri og bensín eru óskyld efni. Spírinn leysist upp í vatni en bensínið ekki. Það þýðir að blandan verður viðkvæmari fyrir raka og geymist mun verr og skemur en hreint bensín. Það verður því ekki gerlegt að flytja íblandað bensín til landsins, heldur verður að blanda spíranum út í bensínið hér á landi, sem mun kosta bæði umstang og fjármuni. Þá eykst hætta á því að eldsneyti á tönkum bíla sem standa ónotaðir um tíma hreinlega eyðileggist.

Þar við bætist svo að íblöndunarefnin verða vegna meintrar umhverfismildi sinnar undanþegin sköttum og gjöldum sem lögð eru á eldsneyti til bíla. Þannig mun ríkissjóður verða af um 800 milljóna króna skatttekjum. Þrátt fyrir það munu neytendur ekki njóta þessa skattfrelsis því að kostnaður við íblöndunina og hugsanlegar skemmdir sem þau kunna að valda á tækjum og búnaði, þar á meðal á bílum landsmanna, mun éta þessi skattfríðindi upp og líklegast gott betur.