Es-merkingar á öll dekk fyrir 2012

Meðan Svíar hafa gegnt forystu í Evrópusambandinu hefur atvinnumálaráðherra þeirra lagt mikla áherslu á nýjar staðlaðar ES merkingar á hjólbarða. Úr þessum merkingum eiga neytendur að geta lesið núningsmótstöðu (eldsneytiseyðslu) dekkjanna, hávaða frá þeim og loks bleytuveggrip þeirra. Nú hefur málið loks náð fram að ganga og skulu allir hjólbarðar sem seldir verða á Evrópska efnahagssvæðinu framvegis og í síðasta lagi fyrir nóvembermánuð árið 2012 vera með þessum merkingum.

Merkingunum mun svipa mjög til þeirra merkinga sem framleiðendum heimilistækja er gert að merkja tæki sín. Þær eru þannig að veggrip og núningsmótstaða er hvorttveggja táknað á skalanum A til G og veggnýr frá dekkinu utan við bílinn er táknað með dB- eða desibeltölu.

Hugmyndin er auðvitað sú að gera neytendum auðveldara að bera saman og velja sér hjólbarða. Merkingarnar verða í góðu samræmi við nýsett lög og reglugerðir um gerðarviðurkenningu hjólbarða og lágmarkskröfur sem þeir verða að uppfylla varðandi núningsmótstöðu, veggrip í bleytu og veggný. Þessar nýju reglur eru yfirþjóðlegar og vægari lög og reglur í einstökum löndum geta ekki opnað þeim dekkjum leið sem eru ómerkt og/eða uppfylla ekki Evrópukröfurnar.

Maud Olofsson atvinnumálaráðherra Svíþjóðar hefur barist fyrir bæði nýju dekkjalögunum og lögunum um ES merkingar á dekk. Hún segir við sænska fjölmiðla að nýju merkingarnar séu merkilegur áfangi. Merkingarnar eigi eftir að draga umtalsvert úr CO2 losun frá umferð þegar fólk getur farið að velja sér hjólbarða eftir því hver innri mótstaða þeirra er og þar með eldsneytiseyðsla bílsins.

Ekkert hefur enn verið gefið upp hvernig prófanir á dekkjunum eiga að fara fram áður en þau fá nýju merkingarnar né hvort ætlunin sé að tilgreina fleiri eiginleika þeirra, eiginleika eins  og endingu og slitþol.

Flestir stærstu dekkjaframleiðendurnir gera stöðugt tilraunir með dekk til að gera þau sem hæfust til þess sem þeim er ætlað. En það er meira en að segja það að búa til fullkomið dekk, því að ákveðnir eiginleikar „rekast á“ og eru ill-samrýmanlegir.  Þannig er t.d. mjög erfitt að búa til dekk sem hefur mjög lága innri mótstöðu en jafnframt mjög góða hemlunareiginleika og að búa til dekk sem er jafnvígt á sumarfæri sem vetrarfæri.

Þannig er ljóst að ef vel á að vera þyrfti að merkja vetrardekk á talsvert annan hátt en sumardekk, enda skipta aðrir þættir máli í vetrarfæri heldur en í sumarfæri – þættir eins og hemlunareiginleikar á snjó og ís og á auðum sumarvegi.  Auto Motor &Sport í Svíþjóð segir að vinna við að útfæra merkingar fyrir vetrardekk sé reyndar hafin en skýrar og auðskiljanlegar vetrardekkjamerkingar verði vart tilbúnar fyrr en eftir fáein ár. Fyrst um sinn verða því merkingar einungis á sumardekkjunum.

Þótt ekki hafi heyrst mikið frá hjólbarðaiðnaðinu um nýju lögin og hinar nýju merkingar, þá er vitað mál að stóru framleiðendurnir í Evrópu eins og t.d. Continental, Goodyear, Michelin og Pirelli eru alls ekki óánægðir með málið. Á Evrópumarkaði hefur undanfarin ár talsvert borið á ódýrum dekkjum, aðallega frá Asíu sem komast ekki í hálfkvisti við dekk fyrrnefndu framleiðendanna. Þessi dekk bera oft nöfn sem svipar mjög til dekkja stóru framleiðendanna auk þess að vera mjög lík í útliti. En þættir eins og veggrip, hemlunareiginleikar og slitþol er hins vegar yfirleitt aðrir og verri hjá ódýru dekkjunum. Skýrar merkingar gætu því orðið til að almenningur lendir síður í því að kaupa köttinn í sekknum í þessu tilliti.