ESC í öllum nýjum bílum frá 1. nóv. nk.

ESC stöðugleikabúnaður verður lögskyldur staðalbúnaður í öllum nýjum bílum á Evrópska efnahagssvæðinu strax á þessu ári. Sjálfvirkur neyðarhemlabúnaður sem hemlar sjálfvirkt ef hindrun er framundan verður á sama hátt lögskyldur búnaður í vörubílum og rútum á þessu ári. 

Þessi nýju lög munu taka gildi þann 1. nóvember í haust. Þar með er loku fyrir það skotið að nýir fólksbílar án ESC- (ESP) búnaðar geti fengið gerðarviðurkenningu á Evrópska efnahagssvæðinu. Gerðarviðurkenning er forsenda þess að bílar fáist skráðir.

Nýju lögin ná þó fyrst um sinn ekki til bíla án ESC búnaðar sem gerðarviðurkenningu hlutu áður en lögin tóku gildi. Það er því ekki fyrr en 1. nóvember 2014 að allir fólksbílar verða að vera fæddir með ESC kerfi. Það þýðir að ýmsir ódýrari bílar, eins og t.d. Toyota Aygo sem selst hefur í stórum stíl víða, eins og t.d. í Danmörku og eru ekki er með ESC sem staðalbúnað þar, verða gjaldgengir á nýbílamarkaði í Evrópu til 1. nóv. 2014 svo framarlega sem þeir eru óbreyttir. Þegar hins vegar ný gerð Toyota Aygo kemur fram sem er það breytt að hún þarf að gangast undir nýja gerðarviðurkenningu, verður nýja gerðin að vera með ESC kerfi sem staðalbúnað. Loks má geta þess nýja löggjöfin snertir í engu þá bíla sem þegar eru skráðir og í umferð.Þeir mega áfram vera í umferð og geta gengið kaupum og sölum manna í milli uns þeir verða úreltir.

ESC búnaður er mjög mis algengur í bilum í Evrópu. Hlutfall fólksbíla með ESC er hæst í Svíþjóð en lægst í ríkjum Austur Evrópu og lágt í mörgum ríkjum Suður- og Mið- Evrópu. Þá búast margir við því að nýju ESC lögin muni tefja fyrir yfirvofandi stórinnrás kínverskra bíla í Evrópulönd.

Ennfremur munu nýjar reglur um búnað vörubíla og stórra bíla taka gildi þann 1. nóvember 2013. Frá og með þeim degi verða nefnilega allir nýir vörubílar, rútubílar og strætisvagnar að vera með búnað sem sér hindranir framundan bílunum og varar ökumanninn við og nauðhemlar sjálfvirkt ef ökumanni yfirsést hættan framundan. Búnaðurinn á að hindra að þungu farartækin þrumi aftan á kyrrstæða bíla og alvarleg slys verði þegar ökumaðurinn er annarshugar við aksturinn. Ennfremur á að vera í stóru bílunum búnaður sem les kant- og miðlínur vegarins og varar ökumanninn við ef hann er á leið út af eða inn í umferðina sem á móti kemur.