ESC stöðugleikakerfi verður skylda

http://www.fib.is/myndir/ESP-tree.jpg
ESC stöðugleikabúnaður. Mikilvægi þessa öryggisbúnaðar er talið svipað og öryggisbeltanna.

Frá og með nóvembermánuði 2011 verða allir nýir bílar að vera með ESC stöðugleikabúnaði. Evrópuþingið hefur samþykkt frumvarp þessa efnis en til að lögin taki gildi þar ráðherraráð ES að undirrita lögin. Ekkert bendir til annars en að ráðið leggi sína blessun yfir þau.

Lögin ná í fyrstunni til nýrra fólksbíla og sendibíla og skulu þeir hafa innbyggðan ESC (ESP) búnað til að fást skráðir innan Evrópska efnahagssvæðisins. Árið 2014 víkkar gildissvið laganna og frá því ári skulu þau ná til allra bíla, stórra og smárra.

Dr. Werner Struth hjá Bosch segir slysarannsóknir sýna að orsök flestra dauðaslysa sé sú að bíllinn skrensar og ökumaður missir stjórn á honum. ESC skrikvörnin geti þannig útrýmt um 80 prósentum slíkra slysa.

Það voru upphaflega vísinda- og tæknimenn hjá Bosch sem fundu upp skrikvörnina og fjöldaframleiðsla á ESC búnaði hófst hjá Bosch strax árið 1995. Í frétt frá Bosch segir að rúmur helmingur eða 53 prósent nýskráðra bíla á fyrri hluta ársins 2008 hafi verið með ESC-búnaði. Það þýðir að tæpur helmingur nýrra bíla var án búnaðarins.

Í byrjun þessa árs tóku gildi nýjar reglur hjá EuroNCAP. Samkvæmt þeim geta þeir bílar einir nú fengið fimm stjörnur í árekstursprófum stofnunarinnar sem búnir ESC stöðugleikabúnaði.