Etanóljafnan gengur ekki upp

http://www.fib.is/myndir/Biofuels.jpg
Lífrænt eldsneyti - tóm vitleysa - segir sænskur vísindamaður.

Það er tóm vitleysa að hægt sé að láta etanól koma að einhverju eða öllu leyti í stað bensíns á farartæki. Það fer meiri orka í það að búa etanólið til en fæst úr því sem eldsneyti á bíla, segir Torbjörn Rydberg vísindamaður við landbúnaðarháskólann í Uppsölum í Svíþjóð við Dagens Nyheter.
 
Torbjörn Rydberg hefur tekið þátt í fjölda rannsókna á sjálfbærri orku og nýtingu orkulinda, m.a. í Bandaríkjunum og á Ítalíu. Niðurstaða flestra rannsóknanna er sú að lífrænt eldsneyti unnið úr plöntum og gróðurleifum sé verkefni sem ekki borgi sig. Það skipti ekki höfuðmáli hverskonar plöntur séu ræktaðar í þessum tilgangi – repja, sykurreyr, maís eða eitthvað annað úr plönturíkinu – of mikil orka og vinna bæði manna og véla fari í framleiðsluna þannig að dæmið gangi aldrei upp. Að halda því fram að hægt sé að láta lífrænt eldsneyti koma í stað olíu séu því hreinar blekkingar.

Í Svíþjóð ríkir mikill áhugi almennings og stjórnmálamanna á því að nota sem mest lífrænt eldsneyti, einkanlega etanól og hefur framleiðsla á því stóraukist í seinni tíð. Allt bensín sem selt er í landinu inniheldur minnst 10% etanól en mismunandi etanólríkar blöndur fást, allt upp í hreint etanól fyrir bíla. Því hærra sem hlutfall etanóls er í eldsneytinu, þeim mun lægri umhverfisskattar eru lagðir á það.
Hægt er að lesa um þetta mál í Dagens Nyheter hér.