Euro NCAP hefur skilað okkur öruggari bílum

Það er enginn vafi á því að  Euro NCAP hefur skilað almenningu miklu sterkari og öruggari bílum en annars hefði orðið og jafnframt stuðlað að miklu hraðari þróun hverskonar virks öryggisbúnaðar eins og loftpúða, læsivarðra hemla, skrikvarnarbúnaðar, sjálfvirkrar neyðarhemlunar o.fl og að slíkur búnaður einskorðist ekki við dýrustu lúxusbílana eins og áður var, heldur sé staðalbúnaður í öllum bílum hins venjulega fólks.

Öll starfsemi og allar niðurstöður Euro NCAP hafa alltaf verið fyrir opnum tjöldum og öllum aðgengilegar og upplýsingarnar skýrar og auðskiljanlegar. Það hefur gert bílakaupendur sem neytendur miklu meðvitaðri um öryggi sitt og annarra en áður hefur þekkst. Hin opna starfsemi Euro NCAP hefur þannig eflt mjög vitund neytenda og gert þeim það mögulegt að bera saman öryggisþætti bíla áður en kaup eru ákveðin.
 
Í dag er svo komið að níu af hverjum tíu bílum sem neytendum standa til boða í Evrópu hafa verið árekstrarprófaðir af Euro NCAP. Bæði almenningur og stjórnvöld og flestir bílaframleiðendur hafa fyrir löngu tekið Euro NCAP í sátt og treysta sem óháðum ábyrgum aðila. Eitt Evrópuríki – Danmörk – hefur meira að segja lögfest sérstakan afslátt af innflutnings- og skráningargjöldum við kaup á bílum sem náð hafa fimm stjörnum hjá Euro NCAP. 

 
Euro NCAP í áranna rás
1996 – Euro NCAP (New Car Assessment Programme) stofnað sem óháð öryggisprófunarstofnun af samtökum bíleigenda- og neytendafélaga í Svíþjóð, Bretlandi og Hollandi með stuðningi samtaka bifreiðaeigendafélaga, FIA.

1997 – Fyrsta árekstrarprófunin. Prófaður voru sjö vinsæir smá- og millistærðarbílar. Verulegir öryggisbrestir komu í ljós í þeim öllum.

 2001 – Euro NCAP breytir öryggismatinu. Hæsta öryggiseinkunnin verður fimm stjörnur í stað fjögurra áður. Bifreiðaframleiðendur lýsa yfir hver af öðrum að þeir ætli framvegis að framleiða öruggari bíla. Byrjað að meta styrk bíla gagnvart árekstri frá hlið.Renault Laguna er fyrsti bíllinn sem hlýtur fimm stjörnur eða fullt hús.

2003 – Öryggi barna í barnabílstólum verður þáttur í árekstrarprófunum.

2008 – Euro NCAP byrjar að meta hæfi ökumannssætanna til að verja -ökumann gagnvart hálshnykk.

2009 – Euro NCAP innleiðir nýtt heildarmat. Bílar eru ekki lengur eingöngu öryggismetnir út frá árekstrarþoli þeirra heldur líka eftir virkum öryggisbúnaði í þeim, eins og ESC skrikvörn, sjálfvirkri neyðarhemlun og búnaði sem minnir fólkið í bílnum á að spenna beltin.

2010 – Euro NCAP Advanced er sérstök viðbótar stigagjöf sem innleidd var fyrir ýmsan viðbótar-nýtæknibúnað, sem stuðlað getur að færri slysum eða dregið úr afleiðingum slysa.

2011 – Euro NCAP árekstrarprófar fyrsta rafmagnsbílinn.
2012 – Árekstrarprófanir á sendibílum og smárútum hefst.

2014 – Einkunnagjöf fyrir sjálfvirka neyðarhemlun (AEB) og akreinalínulesara verður beinn hluti af aðal-öryggiseinkunn (stjörnugjöf) bíla. Byrjað að meta nýjan öryggisbúnað eins og hraðatakmarkara og skiltalesara.

2015 – Árekstrarprófið sjálft útvíkkað þannig að ekki er lengur eingöngu líkt eftir árekstri tveggja bíla þar sem 40% af framenda bílsins rekst á hindrun, heldur er þol bílanna líka prófað í árekstri á steinvegg.

2016 – Prófun á sjálfvirkri hemlun (AEB) er hert þannig að nú verður kerfið að geta ,,séð“ fótgangandi. Jafnframt eru kröfur til annarra öryggiskerfia bílanna hertar.

2018 – Prófun á árekstursþoli bíla frá hlið verður víkkuð út þannig að þolið verður prófað frá báðum hliðum bíla. Radarsjón AEB kerfis bíla verður einnig að geta séð reiðhjólafólk og brugðist við og hemlað bílnum.