EuroRAP bíllinn afhentur í gær

The image “http://www.fib.is/myndir/Sturlabo2.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.
Sturla Böðvarsson samgönguráðherra.

Í gær tók Árni Sigfússon formaður FÍB við lyklum að nýjum Mercedes Benz A150 úr hendi Hannesar Strange framkvæmdastjóra Bílaumboðsins Öskju. Bíllinn hefur verið búinn tæknibúnaði til vegrýni, eða öryggisskoðunar á íslenskum vegum.
Nýi bíllinn tengist EuroRAP verkefninu á Íslandi sem nú er að hefjast. Það felst í því að vegir eru skoðaðir með tilliti til öryggisþátta í hönnun þeirra. Bílnum er ekið um vegina og tæknibúnaður í bílnum safnar gögnum um vegina og umhverfi þeirra með tilliti til slysahættu fyrir vegfarendur. Úr þessum gögnum verður síðan unnið sérrstakt áhættumat og áhættukort fyrir ákveðna vegi og vegarkafla. Það verður síðan leiðbeinandi fyrir ökumenn, fyrir veghaldara og vegagerðarfólk um hvað skal gera til að draga úr slysahættu á vegunum og hvernig nýir vegir verði best úr garði gerðir til að slysahætta verði sem minnst. Tölvuhugbúnaðurinn í bílnum er sá sami og hefur verið notaður í sama tilgangi á evrópskum vegum að undanförnu. Sænskir verkfræðingar sem unnið hafa að þróun hans koma hingað til lands í næstu viku og munu þeir stilla búnaðinn og kenna starfsmönnum FÍB að nota hann og vinna úr þeim gögnum sem bíllinn safnar um íslenska vegi.
Sturla Böðvarsson samgönguráðherra og Birgir Hákonarson forstöðumaður umferðaröryggissviðs Umferðarstofu fluttu ávörp við afhendingu bílsins en samgönguráðherra og ráðuneyti hans, ásamt Umferðarstofu eru styrktaraðilar að EuroRAP verkefni FÍB. Ráðherra fagnaði hinu nýhafna samstarfi um bætt umferðaröryggi við FÍB og ítrekaði eindreginn vilja sinn til þess að auka umferðaröryggi og draga úr umferðarslysum með öllum þeim ráðum sem tiltæk eru.
Sex íslensk fyrirtæki styrkja kaup og rekstur nýja bílsins. Þau eru auk bílaumboðsins Öskju, Goodyear, Olíufélagið hf, Lýsing hf, Samskip hf og Vátryggingafélag Íslands.
The image “http://www.fib.is/myndir/RAP-001.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.
Árni Sigfússon formaður FÍB.